6.4.2007 18:44

Föstudagur, 06. 04. 07.

Föstudagurinn langi hefur tekið á sig annan blæ en fyrr, en þó ekki, því að mikil helgi hvílir yfir deginum, þrátt fyrir að meira sé leyfilegt að lögum en áður. Að velja þennan dag til að fá niðurstöðu um fyndnasta mann ársins segir mér það eitt, að þeir hafa ekki skemmtilegan húmor, sem að slíku standa. Raunar benda ummæli Odds Eysteins Friðrikssonar, sem stendur fyrir keppninni, til þess að hann skilji alls ekki, hvaða hughrif fylgja föstudeginum langa hjá flestum Íslendingum - eða virðing hans fyrir atburðinum, sem dagurinn er helgaður, sé mikl.

Ég ók austan úr Fljótshlíð í blíðskaparveðri í dag og var stöðugur straumur bíla á austurleið. Umferðin var miklu meiri en ég hef til dæmis kynnst um verslunarmannahelgi, samt hefur ekki verið eins mikið látið með hana í fjölmiðlum og þá. Hraðinn virtist jafn og ökumenn sýndu tillitssemi, þótt ekki hefði verið hvatt til hennar með látlausum útvarpsþáttum kvölds og morgna marga daga fyrir helgina. Á leiðinni sá ég þrjár lögreglubifreiðir við eftirlitsstörf.

Rut Heiðarsdóttir, dótturdóttir mín, vann það afrek í dag að velta sér í fyrsta sinn af bakinu á magann við mikinn fögnuð viðstaddra.