2.4.2007 5:05

Mánudagur, 02. 04. 07.

„Lýðræðið sigraði“ segja þau Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Morgunblaðinu um úrslitin í Hafnarfirði. Gott ef Lúðvík Geirsson bæjarstjóri telur það ekki líka merkilegast við úrslitin um deiluskipulagið, sem hann lagði fram og var hafnað með 88 atkvæðum.

Ég vissi ekki, að það væri verið að kjósa um lýðræðið í Hafnarfirði - að það skyldi vera kosið er hins vegar til marks um, að lýðræði sé í Hafnarfirði og breyttist ekkert við kosninguna. Kannski hafa þau Steingrímur J. og Ingibjörg Sólrún verið með hugann við gömul ummæli Lúðvíks? Í viðtali við málgagn Alþýðubandalagsins, Vikublaðið, 20. maí árið 1997 var Lúðvík spurður að því á hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit. Ekki stóð á svari: Lenín. Sagan segir, að Lenín hafi ekki hlynntur lýðræði, þótt Lúðvík hafi nú borið deiliskipulag undir Hafnfirðinga - í ljósi afstöðu Leníns er það vissulega sigur fyrir lýðræðið.

Í Hafnarfirði var kosið um deiliskipulag, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar vann undir stjórn Lúðvíks, en hann hefur sagt, að vegna lýðræðisins vilji ekki hann segja, hvaða skoðun hann hefur á skipulaginu. Úr því að hann hafi ekki gert það fyrir kosningar, sé það hvort sem er of seint núna.

Í stað þess skipulags, sem var hafnað með 88 atkvæðum, þarf að koma nýtt - verður það einnig borið undir atkvæði? Stjórnmálafræðingur hefur sagt, að ný bæjarstjórn í Hafnarfirði geti ekki hrundið niðurstöðu kjósenda, en getur sama bæjarstjórn ákveðið nýtt deiliskipulag á þessu svæði, án þess að bera það undir kjósendur?

Í sama mund og úrslitin með 88 atkvæða muninum berast, er sagt frá því, að á vettvangi Evrópusambandsins vilji menn banna tölurnar 8 og 88 á bolum og jökkum, af því að þær séu ekki tákn lýðræðis heldur nasisma og séu misnotaðar af nýnasistum. Innflytjenda- og kynþáttaóvild tekur á sig ýmsar myndir og birtist á fleiri stöðum en í auglýsingum frá Frjálsynda flokknum.

Mér blöskrar hvernig Egill Helgason ræðir öryggis- og varnarmál og rökstyð það hér:

 

Ég er þeirrar skoðunar, að Egill Helgason eigi að ræða varlega um öryggis- og varnarmál.  Á vefsíðu sinni segir hann:

„En sem talsmaður aukinna varna er hann (Björn Bjarnason) vonlaus. Menn hlaupa undireins í skotgrafir þegar Björn byrjar að tala um varnarmál - hvort sem það er lögregla, varalið, her eða hversu vel þetta er meint hjá honum. Þetta er bara partur af ímynd Björns og verður ekki breytt úr þessu.

Ef á að ná einhvers konar sátt um að búa til sveitir sem geta tekist á við ýmis öryggisverkefni þá er Björn ekki maðurinn til að ná henni. Það ber heldur ekki að vanmeta inngróna vantrú, fyrirlitningu og skilningsleysi Íslendinga á öllu sem tengist hermennsku.“

Hverjir eru það, sem hlaupa í skotgrafirnar? Jú Össur og Egill. Ef menn hafa eigið asklok til að dæma heiminn, líður þeim áreiðanlega vel, en heimurinn er stærri en asklokið leyfir.