17.4.2007 20:59

Þriðjudagur, 17. 04. 07.

Í dag voru drenin tekin úr brjóstholinu á mér. Loftlekinn hefur með öðrum orðum verið stöðvaður. Það er mikill léttir að vera laus við drenin en um tíma voru þau fjögur til að örugglega yrði sogað út allt aðskotaloft í brjóstholinu.

Með þetta allt í sér og tengdur við sogkerfi í vegg er maður alveg öðrum háður varðandi allar ferðir úr rúminu. Það er í sjálfu sér ekki erfitt með þá góðu þjónustu og umhyggju, sem hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sýna sjúklingum hér á LHS.

Allan sólarhringinn eru hjúkrunafræðingar og sjúkraliðar boðnir og búnir til að bregðast við og leysa úr því, sem að höndum ber.  Ábyrgðin er mikil, þegar glímt er við allt, sem upp getur komið og fjöldi sjúklinga er mikill.