Mánudagur, 16. 04. 07.
Nú er vika liðin frá því að ég lagðist hingað inn á LSH að nýju. Margt hefur verið gert fyrir mig síðan af frábærum læknum og samstarfsfólki þeirra. Sjúklingurinn er líka allur að hressast. Ég þakka öllum, sem hafa sent mér kveðjur og góðar óskir.
Þegar lesin eru skrif Jóns Baldvins Hannibalssonar og Stefáns Jóns Hafstein um Samfylkinguna, mætti halda, að kosningum væri lokið og kjósendur hefðu veitt Samfylkingunni ráðningu. Spurningin, sem þeir félagar eru að velta fyrir sér, snýst um það, hvort skynsamlegt hafi verið að stofna Samfylkinguna á sínum tíma, að minnsta kosti hafi ekki tekist að sameina vinstri menn á þann hátt.
Í aðdraganda landsfundar Samfylkingarinnar gengu hinir hefðbundnu stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar, menn á borð við Einar Kárason rithöfund og Torfa Túliníus prófessor, fram á ritvöllinn, eftir að hafa uppfært lofgreinar sínar um hana. Ingibjörg Sólrún skyldi koma ósködduð frá landsfundi eigin flokks. Á fundinum var þess gætt, að engin atkvæði yrðu greidd um formann eða varaformann - nú var það lófatakið eitt, sem talaði í nafni lýðræðis.
Væri vindur í seglum Samfylkingar ræddu hugsjónamiklir jafnaðarmenn ekki um flokkinn eins og þeir Jón Baldvin og Stefán Jón. Þessi neyðarlegu skrif birtast sömu daga og landsfundur átti að valda straumhvörfum í brösulegri kosningabaráttu Samfylkingarinnar, snúa henni til betri vegar. Nú beinist gagnrýni flokksmanna ekki lengur aðeins að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur heldur að sjálfum tilvistargrundvelli flokksins.