19.4.2007 20:14

Fimmtudagur, 19. 04. 07.

Gleðilegt sumar!

Undarlega var til orða tekið hjá fréttastofu hljóðvarps í hádeginu, þegar sagt var, að varaformenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar „viðurkenndu“, að landsfundir flokkanna hefðu átt þátt í auknu fylgi þeirra samkvæmt skoðanakönnun Gallups, sem var gerð á dögum landsfundanna. Af orðalaginu mætti ætla, að þetta væri eitthvað, sem vefðist fyrir varaformönnunum að játast undir. Raunar virðist hafa verið  spurt á þann veg af hálfu fréttamannsins, að kallað væri eftir þessari „viðurkenningu.“

Hefðu landsfundirnir ekki breytt neinu um fylgi flokkanna, hefði þurft að kalla talsmenn þeirra fyrir og fá skýringu. Hitt liggur í augum uppi, að með fundunum var stefnt að því að auglýsa flokkana og draga að þeim meira fylgi. Könnunin sýnir, að það hefur tekist og er gleðiefni fyrir þá, sem hlut eiga að máli.

Af fréttum má ráða, að þessir tveir fundir hafi verið sambærilegir. Enginn fjölmiðill hefur talið sér skylt að upplýsa viðskiptavini sína um, að hér var í raun um tvo gjörólíka atburði að ræða, þótt Samfylkingin hefði kosið að reyna að hafa yfirbragðið sem líkast og sjálfstæðismenn hafa gert um árabil. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er tekist á um menn og málefni, bæði í nefndum og á fundinum sjálfum. Mörg hundruð manns taka þátt í atkvæðagreiðslum um ályktanir og við kjör á formanni og varaformanni er gengið til atkvæða í óbundinni kosningu.

Landsfundur Samfylkingarinnar var leiksýning með erlendum gestum og fólki utan flokksins, sem fengið var til að fylla dagskrána, svo að sem minnst yrði um almennar umræður. Þegar kom fram ósk um að ræða eitt mál, eftirlaunamálið svonefnda, efnislega á fundinum var óskinni einfaldlega hafnað. Lófatak en ekki lýðræði réð stuðningi fundarmanna við formann og varaformann.

Fundir eins og þessir segja mikla sögu um innri styrk og raunverulegt afl stjórnmálaflokka til að takast á við pólitísk úrlausnarefni og velja sér forystumenn. Einmitt þess vegna skiptir miklu að segja frá inntaki, skipulagi og eðli fundanna. Einstakt tækifæri gafst til þess, þegar Samfylkingin ákvað að velja sömu daga og Sjálfstðisflokkurinn í von um að geta notað afl hans sem vogarstöng rétt fyrir kosningar.