29.4.2007 18:21

Sunnudagur, 29. 04. 07.

Stundum hef ég vakið athygli á skoðunum Björgvins G. Sigurðssonar, frambjóðanda Samfylkingar í suðurkjördæmi, hér á síðunni. Björgvin segir á vefsíðu sinni hinn 25. apríl:

„Íslandsferðin

Hún lifir eftir landsfund heimsókn þeirra Sahlin og Helle til landsins. Ekki efast ég um að heimsóknin gerði gagn.

Hleypti krafti í baráttu jafnaðarmanna og gerði glæsilegan landsfund ennþá flottari og betri.

En ekki þá síður fyrir Monu Sahlin formann sænskra jafnaðarmanna. Eftir Íslandsferðina mælist fylgi Monu og sænskra jafnaðarmanna nú um 44%.

Það mesta í 12 ár og meira en fylgi allra hægri flokkanna sem stjórnina sænsku mynda samanlagt.

Góð reisa það hjá Mohnu. En að öllu gamni slepptu fer þetta vel af stað hjá henni.

Ríkisstjórn hægri manna í Svíþjóð nær ekki vopnum sínum og fara illa með fjöreggið sem er sænska velferðin. Líklega eitt af merkustu afrekum mannsins.“

Ég hélt, þar til ég las þessa hátíðarhugvekju til stuðnings Mohnu, að hún hefði komið hingað til að styrkja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Það er greinilega misskilningur, Samfylkingin var að leggja sænskum krötum lið með því að bjóða Mohnu á landsfund sinn.

Í orðum Björgvins brýst þráin eftir „sænsku velferðinni“ fram af heitri ástríðu, þegar henni er lýst sem einu „af merkustu afrekum mannsins“, hvorki meira né minna. Hvers vegna skyldi Björgvin ekki láta sér nægja að gera íslenska kerfið enn betra í stað þess að vilja skipta því út fyrir hið sænska?