18.4.2007 20:17

Miðvikudagur, 18. 04. 07.

Borgarmynd Reykjavíkur breyttist í dag, þegar gömul hús á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu, sögufræg hús, sem báru þó lítil sem engin merki fornrar frægðar, þegar þessi stórbruni varð. Slökkviliðið vann þrekvirki og lögreglan tryggði því þá öruggu umgjörð, sem þarf að mynda, þegar slíkir atburðir gerast.

Brunarústir mega ekki standa lengi í hjarta borgar, en hins vegar þarf að vanda vel, sem gert verður á þessum stað. Norðan Lækjartorgs er að rísa nýr kjarni í miðborg Reykjavíkur með tónlistarhúsi og ráðstefnumiðstöð.  Torgið allt hlýtur að fá á sig nýjan svip, þegar byggt verður norðan og sunnan við það.

Í dag kom út nýtt hefti af Mannlífi  með forsíðuviðtali Bergljótar Davíðsdóttur við mig. Viðtalið var tekið, áður en ég veiktist alvarlega í annað sinn. Bergljót spurði mig ekki mikið um stjórnmál líðandi stundar heldur hafði hún meiri áhuga á persónulegri þáttum. Bergljót vann viðtalið af mikilli alúð, vonandi fellur niðurstaðan lesendum í geð.