Sunnudagur 23.11.1997
Sunnudaginn 23. nóvember klukkan 13.30 var séra Karl Sigurbjörnsson vígður til biskups yfir Íslandi í mikilli athöfn í Hallgrímskirkju. Vorum við Rut komin í kirkjuna um 13.15 og hún var rétt fyrir 16.00, þegar við gengum út úr henni og sýnir það eitt, hve umfangsmikil athöfnin var. Gaf það henni nýtt yfirbragð, að hún skyldi fara fram í Hallgrímskirkju. Þótt ég skilji vel áhuga Dómkirkjumanna á því að halda fram hlut sinnar kirkju og tel rök þeirra mæla með því, að slíkar athafnir fari þar fram, gefur valið á Hallgrímskirkju færi á að hefja athöfn sem þessa upp í annað veldi, ef ég má orða það svo. Glaður var ég, að sjá vin minn séra Þóri Stephensen í kór Hallgrímskirkju með öðrum prestum, því að ég heyrði hann flytja í útvarp sannfærandi rök fyrir hönd Dómkirkjunnar og lýsa efasemdum um, að sér gæfist færi á að taka þátt í vígsluathöfninni vegna anna í Viðey. Þegar mikill mannfjöldi kemur saman til stórhátíðar í stórri kirkju eins og Hallgrímskirkju skapast einstakt andrúmsloft og er ánægjulegt, að við höfum nú aðstöðu til að kynnast kraftinum, sem í felst í þessum hátíðum með aðstoð stórorgels og frábærra tónlistarmanna og kóra. Það hefur gildi í sjálfu sér að nýta sér slíka aðstöðu, þótt virða beri trúarlegar og sögulegar hefðir.