8.5.2015 17:00

Föstudagur 08. 05. 15

Breski Íhaldsflokkurinn vann góðan sigur í þingkosningunum í gær og hlaut hreinan meirihlutara. Hann er sætari fyrir þá sök að skoðanakannanir, álitsgjafar og bloggarar höfðu spáð svipuðum úrslitum og fyrir fimm árum þegar enginn flokkur fékk umboð kjósenda til að mynda meirihlutastjórn og David Camereon myndaði samsteypustjórn með frjálslyndum.

Íhaldsflokkurinn fékk 330 þingmenn en Verkmannaflokkurinn 232. Þetta er minnsti þingmannafjöldi Verkamannaflokksins síðan 1987. Helsta skýringin á honum er algjört hrun flokksins í Skotlandi þar sem Skoski þjóðarflokkurinn hlaut 56 af 59 þingsætum. Þann ótrúlega árangur má rekja til reiði Skota í garð fyrrverandi forystumanna Verkamannaflokksins, Gordons Browns og Alistairs Darlings, sem beittu sér af hörku gegn sjálfstæði Skotlands í þjóðaratkvæðagreiðslunni 18. september 2014.

Fyrir hádegi í dag höfðu þrír flokksformenn sagt af sér vegna þeim hafði mistekist að tryggja flokkum sínum viðunandi úrslit: Ed Miliband í Verkamannaflokknum, Nick Clegg í Frjálslynda lýðræðisflokknum og Nigel Farage í UKIP, flokki sjálfstæðissinna. Allir fengu þeir og flokkar þeirra höfnun af hálfu kjósenda. Þegar Cameron ávarpaði þjóðina eftir að hafa rætt við drottningu og staðfest setu sína áfram sem forsætisráðherra fór hann hlýlegum orðum um Miliband og Clegg en minntist ekki á Farage.

Það segir sína sögu um kosningakerfið í Bretlandi að UKIP fékk um 13% atkvæða en aðeins einn þingmann en Skoski þjóðarflokkurinn fékk tæp 5% og 56 þingmenn.

Íhaldsmenn lögðu höfuðáherslu á að afla sér fylgis í kjördæmum þar sem sameina mátti krafta flokksmanna þeirra, frjálslyndra og UKIP til að fella frambjóðanda Verkamannaflokksins.  Þetta var einkum gert með þeim rökum að hætta væri á samsteypustjórn Verkamannaflokksins og Skoska þjóðarflokksins.

Ken Livingstone, fyrrv. borgarstjóri Verkamannaflokksins í London, sagði úrslitin sanna þá kenningu sína að flokkurinn væri enn að súpa seyðið af fráhvarfi Tonys Blairs frá hefðbundinni stefnu Verkamannaflokksins í þágu vinnandi fólks. Ed Miliband hefði ekki farið nógu langt til vinstri með flokkinn. Hann væri hins vegar á réttri leið og ætti að halda áfram með enn róttækari stefnu. Miliband varð ekki við áskorun manna með þessa skoðun og sagði af sér frá og með deginum í dag en varaformaður flokksins leiðir hann fram að þingi hans haustið 2015.