31.5.2015 20:00

Sunnudagur 31. 05. 15

Flogið var um Stavanger frá Bergen með Icelandair í dag. Þessi vél var ein af fáum Icelandair-vélum með laus sæti til landsins þennan sunnudag. Þátttakendur í Smáþjóðaleikunum, sem hefjast á morgun, streyma til landsins og þess vegna eru flugvélar frá Evrópu fullsetnar. Meðal farþega voru nokkrir sem höfðu beðið í sex tíma á Sóla-flugvelli við Stavanger, þeir voru sendir þangað frá Kaupmannahöfn til að komast heim í dag.

Bergen/Stavanger-vélin var á undan áætlun. Henni var þó ekki lagt við rana á flugstöð Leifs Eiríkssonar heldur var okkur ekið í rútum af flughlaðinu. Frá inngangi í stöðinni fórum við upp stiga og síðan í gegnum matstaði í meginsal byggingarinnar og þaðan niður aftur til að ná í töskurnar. Hver er skýringin á þessum króki? Hvers vegna er ekki gengið beint af flughlaðinu inn í töskusalinn? Er það bannað af öryggisástæðum? Eða er þetta bráðabirgðalausn?

Smáþjóðaleikarnir voru í fyrsta sinn hér á landi um þetta leyti árs 1997. Í aðdraganda leikanna  þá var hlaupið með kyndil hringinn í kringum landið til að vekja athygli á þeim. Ekkert slíkt hefur verið gert núna og leikarnir setja ekki sama svip á mannlífið og sjá hefur mátt erlendis.

Frá setningu leikanna á Laugardalsvelli árið 1997 er vafalaust fleirum en mér minnisstætt hve kalt var þann dag og veður hryssingslegt. Það horfir betur á morgun, spáð glampandi sólskini og 11 stiga hita.