17.5.2015 21:50

Sunnudagur 17. 05. 15

Þau ár sem ég sat í ríkisstjórn virtu allir ráðherrar þá reglu að stofna ekki til ágreinings á opinberum vettvangi um mál sem voru til afgreiðslu á vettvangi hennar. Þeir fóru eftir settum reglum til dæmis varðandi kostnaðarmat á vegum fjármálaráðuneytisins. Þessi regla virðist ekki lengur í gildi ef marka má framgöngu Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra vegna frumvarpa um húsnæðismál.

Fyrir nokkrum vikum greip velferðarráðherra til þess óvenjulega ráðs að senda orkubita í fjármálaráðuneytið og gaf þar með til kynna að embættismenn fjármálaráðherra skorti orku til að leggja mat á kostnað vegna frumvarpa hennar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir á ruv.is sunnudaginn 17. maí að ráðuneyti sitt geri ekki kostnaðarmat á frumvörpum sem enn séu að taka breytingum. Það eigi við um frumvarp Eyglóar um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt leiguhúsnæði.

Eygló Harðardóttir sagði í fréttum ríkisútvarpsins laugardaginn 16. maí að hún hefði hafnað ósk fjármálaráðuneytisins um að afturkalla frumvarpið. Á ruv.is hinn 17. maí segir:

„Bjarni segir ráðuneyti sitt ekki hafa farið fram vegna þess að efnislegar athugasemdir hafi verið gerðar við frumvarpið heldur sé það gert í samræmi við það verklag eða gera ekki kostnaðarmat fyrr en frumvarp er tilbúið. Það gildi um þetta mál eins og önnur að þau verði að vinnast í réttri röð.

Eygló sagði líka í fréttum í gær að fjármálaráðuneytið hefði sent drög að kostnaðarmati um húsaleigubótafrumvarpið og beðið væri eftir endanlegu kostnaðarmati frá ráðuneytinu. Bjarni segist ekki vita betur að kostnaðarmatið, sem hafi verið sent, hafi verið endanlegt.“

Fyrir þá sem fylgjast með því hvernig velferðarráðherra ræðir þessi mál er erfitt að henda reiður á efnisatriðum þeirra. Miðað við alla orkuna sem árum saman hefur farið í að finna heppilegt húsnæðiskerfi kemur mest á óvart hve oft menn virðast í raun á byrjunarreit – má minna á að Jóhanna Sigurðardóttir sat meira en 30 ár á þingi og húsnæðismálin voru hennar hjartans mál – samt má skilja umræður á þann veg að allt sé í kalda koli. Er það í raun svo?