Sunnudagur 03. 05. 15
Úlfar hafa verið friðaðir innan ESB frá 1992. Nú óttast Torsten Nilsen, borgarstjóri í Viborg á norðurhluta Mið-Jótlands, að úlfar ógni börnum í bænum og byggðinni í kring. Vill hann að fengin verði heimild frá ESB til að skjóta úlfa í Danmörku.
Talið er að fimmtudaginn 30. apríl hafi úlfur verið á vappi nærri leikvelli barna í miðbæ Viborgar. Staðfest er að úlfur hafi sést skammt frá frístundarhúsi í útjaðri Randers fyrir austan Viborg.
Borgarstjórinn hefur sérstakar áhyggjur vegna þess að hann telur úlfa í Danmörku hafa sloppið úr úlfabúum og kunni þeir því ekki að bjarga sér eins og villtir úlfar og séu því hættulegri mönnum en ella væri. Þá segir hann að fjölgun úlfa í Danmörku úr einum árið 2012 í 19 árið 2015 kalli hættu yfir bústofn bænda.
Thomas Secher Jensen, sérfræðingur við Aarhus Universitet og Naturhistorisk Museum í Árósum, segir ótta borgarstjórans ástæðulausan. Bændur geti varið sauðfé sitt með girðingu sem kostuð sé af opinberum sjóði. Reynslan sýni auk þess að úlfar ráðist sjaldan á nautgripi. Þá segir hann að villtir úlfar flækist til Danmerkur, þeir séu því ekki eins varasamir og borgarstjórinn láti.
Frétt um þetta birtist í dag á vefsíðu Jyllands-Posten. Þar var nýlega birt myndband sem þýskur bóndi tók af úlfahjörð úr traktor sínum fyrir sunnan landamæri Þýskalands og Danmerkur.
Sérfræðingar við háskólann í Varsjá segja um 12.000 úlfa í 22 löndum í Evrópu. Talið er að úlfar úr skógum Póllands hafi lagt land undir fót til Þýskalands og þaðan til Danmerkur. Pólskar rannsóknir benda til þess að úlfar þarfnist stórs yfirráðasvæðis, 200 til 350 ferkílómetra. Í Svíþjóð telja menn að hver hjörð úlfa ráði yfir 1.000 ferkílómetra svæði.