Miðvikudagur 06. 05. 15
Í dag ræði ég við Eggert Skúlason, ritstjóra DV, í þætti mínum á ÍNN. Hann sendi nýlega frá sér bókina Andersen skjölin Rannsóknir eða ofsóknir? Margir álitsgjafar hafa gagnrýnt Eggert fyrir bókina, má þar nefna Egil Helgason, Þórð Snæ Júlíusson, Jón Trausta Reynisson og Pál Vilhjálmsson. Aðrir hafa hrósað henni og nefni ég þar sérstaklega Jón Magnússon hrl.
Egill gagnrýnir að Eggert segi rangt frá ýmsu varðandi Evu Joly og komu hennar til landsins. Þórður Snær segir á Kjarnanum: „Eitt megin einkenni skoðunar Eggerts á eftirhrunsárunum er að ákveðið pólitískt hólf álitsgjafa og stjórnmálamanna séu einhverskonar gerendur í þeim ofsóknum sem margir hafa orðið fyrir. Á meðal þeirra sem hann telur til eru Guðmundur Andri Thorsson, Þorvaldur Gylfason, Hallgrímur Helgason, Gylfi Magnússon, William Black og auðvitað ætluð forsetahjón múgæsingarinnar, þau Egill Helgason og Eva Joly.“
Jón Trausti gerir bókina tortyggilega vegna þess hverjir standa að Almenna bókafélaginu, útgefanda hennar. Páll Vilhjálmsson segir: „Myndin sem Eggert dregur upp af falli Gunnars [Andersens] er að þar fékk þrjóturinn makleg málagjöld. Eggert viðurkennir að verkefnið var að gera Gunnar að skúrki.“
Jón Magnússon segir: „Bókin er vel skrifuð og læsileg. Margar nýjar upplýsingar í bókinni sem eiga virkilega erindi í umræðuna í lýðræðisþjóðfélagi. En það er eðlilegt að þeir sem stóðu að hatursáróðrinum og glæpamannavæðingunni og lýstu Gunnari Anderssen sem „crime buster“ nagi sig nú í handarbökin þegar búið er að svipta af þeim fyrstu hulunni. Þær verða fleiri áður en yfir lýkur.“
Það er sem sagt af ýmsu að taka.
Samtalið má sjá kl. 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti. Þeir sem hafa tímaflakk Símans geta séð þáttinn hvenær sem þeir kjósa eftir kl. 20.00 í kvöld og í raun fram yfir helgina.