29.5.2015 17:00

Föstudagur 29. 05. 15

Margt er skoða í Bergen. Kode-listasafnið geymir ýmsa dýrgripi eftir Munch og aðra stórmálara. Þá má kynnast starfi og starfsaðstæðum Hansakaupmanna í safni um þá í Bergen. Loks segir borgarsafnið sögu Bergen og þar má einnig sjá víkingaminjar, til dæmis kjöl 30 m og 9 til 10 m breiðs víkingaskips.

Fyrir fáeinum dögum var látið eins og ekkert blasti við nema svartnættið á almennum vinnumarkaði vegna verkfalla. Nú hafa stærstu félögin samið um rúmlega 30% hækkun á næstu þremur árum. Þá taka menn við að lýsa áhyggjum vegna verðbólgu. Allt er þetta gamalkunnugt.

Undarlegast er að menn kenni íslensku krónunni um ef illa fer, sérstaklega þegar forystumenn ASÍ vilja frekar evruna. Krónan er ekki annað en andlag þeirra sem takast á um kaup og kjör. Hún ræður ekki ferðinni heldur þeir. Að skella skuldinni á krónuna er ekki annað en hlaupast undan ábyrgð þegar þeir sem semja um kaup og kjör eiga í hlut.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hefur boðað róttækar breytingar á skattalögum. Hann vindur hiklaust ofan af sósíalískum skattabreytingum Steingríms J. Sigfússonar frá vorinu 2009. Enginn vafi er á að skattalagabreytingarnar verða til að blása nýju lífi í efnahagsstarfsemina.

Ríkisstjórnin boðar gamalkunnar ráðstafanir í tengslum við kjarasamningana: átak til að auðvelda tekjulágum til að koma yfir sig húsnæði og stofnun þjóðhagsráðs. Þetta var reynt af viðreisnarstjórninni á sjöunda áratugnum.