16.5.2015 19:20

Laugardagur 16. 05. 15

Þegar ekið er að bensínstöð og að minnsta kosti ein dælan er biluð og síðan hefur karlaklósettið verið lokað að því er virðist minnst í eina viku veltir maður fyrir sér hvort fyrirtækið sem á og rekur stöðina sé á fallanda fæti. Þetta er hvað sem öðru líður í andstöðu við ímyndina sem nokkurt þjónustufyrirtæki vill skapa sér. Þetta flaug í hug mér þegar ég yfirgaf Olís-stöðina á Selfossi þar sem seldur er góður ís.

Í Svínahrauni, skammt fyrir ofan Litlu kaffistofuna, eru bílhræ á stöpli sem ber tvo svarta krossa og inn í þá er rituð tala sem sýnir fjölda látinna í umferðarslysum ár hvert. Þess er vel gætt að færa inn nýja tölu við hvern sorgaratburð á vegunum. Um nokkurt skeið hefur þetta ekki verið gert á krossinn sem blasir við vegfarendum sem koma að austan. Líklega hefur óveður í vetur skemmt krossinn þar. Miðað við alúðina sem umsjónarmenn hafa jafnan sýnt því sem birtist á stöplinum kemur á óvart að ekki skuli gert við þennan kross.

Furðulegt hve túnin eru fljót að taka á sig grænan svip um leið og rignir. Raunar mátti frekar tala um skýfall austur í Fljótshlíð í dag. Jaðarkaninn er kominn og tekinn til við að kroppa fræ og skordýr við húsið. Þetta er örugglega sami fuglinn sem kemur ár eftir ár til að spígspora um túnblettinn og tylla sér á staura. Ratvísin er mikil, að finna ávallt rétta blettinn eftir flugið frá Bretlandseyjum.