Fimmtudagur 28. 05. 15
Nýlega er lokið endurnýjun á tónleikasalnum við hið gamla heimili Griegs á Trollhaugen skammt utan við miðborg Bergen. Þetta er einstaklega fallegur salur sem lagar sig fullkomlega að náttúrulegu umhverfi og tengist vatninu fyrir neðan og komponisthúsinu, það er smáhýsi sem Grieg notaði til tónsmíða.
Í hádeginu í dag lék Eva Þórarinsdóttir fiðluleikari í þessum fagra sal í 60 mínútur við mikinn fögnuð áheyrenda. Eva er fulltrúi Íslands í keppni um Den norske solistpris en úrslit hans verða á laugardagskvöld sem hluti af Listahátíðinni í Bergen sem hófst í gær. Hér má sjá mynd frá tónleikunum.
Meðal þeirra sem standa að þessari solistakeppni er NRK2 undir merkjum þáttarins Hovedscenen. Hitti ég Arild Erikstad, stjórnanda þáttarins, fyrir tilviljun að tónleikunum loknum og náði að þakka honum margar ánægjustundir. Það virtist koma honum á óvart að NRK2 næðist á Íslandi. Arild Erikstad tók viðtal við Evu og birtist það vafalaust í þætti hans um keppnina.
Síðdegis sat ég fund hjá Kim Fordyce Lingjærde, ræðismanni Íslands, í skrifstofu hans í Bryggen, hinum gömlu Hansakaupamannahúsum í Bergen. Þar komu saman nokkrir einstaklingar sem hafa áhuga á að halda minningu Snorra Sturlusonar á loft og rækta tengsl við Ísland.
Um kvöldið lék síðan danskur kvartett í Hákonarhöll. Var eins og jafnan áður hátíðlegt að koma í hallarsalinn. Höllin og virkið við hana sprakk í loft upp árið 1944 með skipi hlöðnu sprengiefni í höfninni í Bergen. Hún var endurreist og lauk því verki formlega í september 1961 en einmitt þá kom ég þangað með foreldrum mínum í hinni frægu ferð Heklu þegar styttan af Ingólfi Arnarsyni var afhjúpuð í Rivedal.