Föstudagur 01. 05. 15
Nú er tæp vika þar til Bretar ganga að kjörborðinu og talið er víst að hvorugur stóru flokkanna, Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn, fái hreinan meirihluta. Spáð er samsteypustjórn að nýju. Tveggja flokka kerfið í Bretlandi gengur sér til húðar eins og margt annað í stjórnmálum líðandi stundar. Sterkasta þriðja stjórnmálaaflið er Skoski þjóðarflokkurinn (SNP). Sumir spámenn segja að hann sigri í öllum kjördæmum Skotlands. Það bitnar verst á Verkamannaflokknum þegar litið er til gamalgrónu flokkanna.
Í Frakklandi hefur kosningakerfið átt að tryggja að annað hvort sitji við völd sósíalistar og aðrir vinstrisinnar eða hægri- og miðjumenn. Þar eins og í Bretlandi hefur þriðja stjórnmálaaflið sótt í sig veðrið, Þjóðfylkingin, sem oftast er rætt um sem flokk lengst til hægri þótt margt í stefnu hans sé alls ekki dæmigert fyrir hægri flokk. Tveggja fylkinga kerfið hefur riðlast í Frakklandi, að minnsta kosti þegar kosið er til annars en sjálfs þjóðþingsins.
Víðar í Evrópu er hefðbundið mynstur stjórnmálanna í uppnámi og þurfum við ekki að fara út fyrir landsteinana til að kynnast því. Nýjasta könnun hér sýnir Pírataflokkinn með um 30% fylgi á kostnað allra annarra flokka sem hafa dregist langt aftur úr honum. Áminningin er alvarlegust fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, stjórnarflokkana. Fyrir utan að fara nú sameiginlega með stjórn landsins standa þeir auk þess dýpri rótum í stjórnmálasögunni en aðrir flokkar sem alla má í raun kenna við 21. öldinni sé litið til sögu þeirra.
Framsóknarmenn fagna 100 ára afmæli flokks síns á næsta ári þótt stefna flokksins sé nú allt önnur en þegar samvinnustefnan og Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) var þungamiðjan í starfi og stefnu flokksins.
Samhengið er mest í sögu Sjálfstæðisflokksins frá því að hann var stofnaður árið 1929 með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins um klassíska mið-hægri stefnu með áherslu á að stétt skyldi starfa með stétt og allir landsmenn njóta sín án tillits til búsetu samhliða baráttu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og heiðarleika: Gjör rétt þol ei órétt, var eitt af meginslagorðum flokksins.
Sjálfstæðisflokkinn hefur því miður borið af leið og ímynd hans skekkst. Þess sjást dapurlega lítil merki að innan hans sé rætt um leiðir til að rétta kúrsinn.