15.5.2015 18:40

Föstudagur 15. 05. 15

Erfitt er að fá botn í um hvað deilurnar á alþingi um rammaáætlunina snúast. Helst má ætla að þær séu um að alþingismenn hafi framselt vald um ákvarðanir varðandi nýtingu náttúruauðlinda eða vernd þeirra til nefndar manna utan þings og þess vegna megi þingnefnd ekki mynda sér skoðun á málinu eða leggja fram tillögu í eigin nafni. Sé þessi skilningur réttur gengur hann gegn hugmyndum um fulltrúalýðræðið og vald þeirra sem kjósendur velja til að fara með stjórn mála sinna. Hvert sækir nefnd um rammaáætlun umboð sitt? Hvar er það skráð í stjórnlög að alþingi megi ekki hrófla við niðurstöðum hennar?

Furðulegt er að stjórnarandstaðan setji öll störf alþingis í uppnám til að koma í veg fyrir að meirihluti alþingis geti fylgt fram máli sem í eðli sínu er rammpólitískt og stöðvun málsins sé vegna þess að það eigi að liggja í höndum sérfræðilegra ráðgjafa en ekki að lokum hjá þingmönnum. Upphrópanirnar og bægslagangurinn vekur grunsemdir um veikan málstað þeirra sem vilja hindra að alþingi taki afstöðu til málsins.

Í þingræðu í dag sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pirata, stærsta stjórnmálaflokksins ef marka má kannanir:

„Ég mótmæli dagskrá þingsins í dag. Ég mótmæli þessari forgangsröðun, ég mótmæli því að forseti setji í óþökk þingflokksformanna hér mál á dagskrá sem er stríðsyfirlýsing á svo viðkvæmum tímum þar sem stórir hópar í samfélaginu hafa fundið sig knúna til að fara og nýta sér verkfallsréttinn. Það er neyðarástand á Landspítalanum, það er neyðarástand víða um land. Og í staðinn fyrir að við finnum tíma til að finna einhverjar leiðir sem við getum veitt aðkomu að kjarabaráttunni, í gegnum skattleysismörk eða eitthvað annað, erum við hér að karpa um eitthvað sem á ekki að karpa um því að það er búið að setja ramma og ramminn skal standa, forseti.“

Þetta er dæmigerð málþófsræða. Ræðumaður telur brýnna að ræða eitthvað annað en hann ræðir. Hver knýr Birgittu Jónsdóttur til að tala um eitthvað allt annað en hún vill ræða?