22.5.2015 17:40

Föstudagur 22. 05. 15

Óskiljanlegt er hvernig starfsáætlun alþingis hefur orðið að ásteytingarsteini og látið er eins og um mikilsverð tíðindi sé að ræða að frá henni sé vikið. Hún er ekki annað en rammi utan um störf þingsins. Getið er um kjördæmavikur, nefndavikur, dagsetningar umræðna um fasta liði eins og venjulega í þingstörfum. Allt hefur þetta gengið eftir á þinginu sem nú situr annað en dagsetning fyrir eldhúsdagsumræður þar sem þingmenn gera hreint fyrir sínum dyrum í lok þings.

Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, hefur tilkynnt að eldhúsdagumræður frestist enda verði þinglok síðar en ætlað var. Ríkisstjórnin ætlar að leggja fram mikilvæg frumvörp sem tengjast afnámi fjármagnshafta.

Athygli beinist þó mest að því núna að minnihlutinn á alþingi vill ekki að þar sé rætt um virkjanir af því að það stangist á við það sem nefnt er rammaáætlun. Þar er um áætlun að ræða eins og starfsáætlun alþingis, áætlun sem hlýtur að lúta vilja alþingis sé um opinbert mál að ræða. Að láta eins og unnið sé skemmdarverk taki meirihluti alþingis ákvörðun um breytingar á þessari rammaáætlun og óhjákvæmilegt sé að setja störf alþingis í uppnám af þessum sökum er hrein firra.

Það er skiljanlegt láti stjórnarflokkarnir hjá líða að koma til móts við stjórnarandstöðuna vegna kröfugerðar hennar og árása á forseta alþingis. Vilji stjórnarandstaðan draga upp þessa mynd af alþingi og störfum þess á að leyfa henni það og halda fundi sólarhringum saman ef svo ber undir. Þetta var gert á þinginu 1991, sællar minningar.