13.5.2015 18:40

Miðvikudagur 13. 05. 15

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt á ÍNN viðtal mitt við Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjón og stjórnanda flugstöðvardeildar embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Undir Jón Pétur fellur dagleg stjórn landamæravörslu, þá er hann varamaður í stjórn Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, auk þess sem hann fór sem háseti um borð í varðskipið Tý á Miðjarðarhafi fyrir nokkrum mánuðum. Það er því nóg um að ræða. Samtalið er endursýnt á tveggja tíma fresti. Þeir sem eru með tímaflakk Símans geta horft á það þegar þeim hentar.

Í hádegisútvarpi ríkisins þriðjudaginn 12. maí sagði að Samtök atvinnulífsins (SA) hefðu þá um morguninn lagt fram tilboð í viðræðum við stærsta samningahóp launafólks, 55 þúsund manns, þar á meðal Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR). Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði við fréttastofuna:

 „Fundurinn gekk bara ágætlega í morgun og menn eru bara opnir og jákvæðir fyrir því að skoða þetta tilboð sem að SA hefur lagt fram. Og vonandi náum við eftir daginn í dag að koma með einhverjar ábendingar sem við skilum bara inn í fyrramálið. Já, það er bara ýmislegt í þessu sem að við viljum skoða og horfum á með jákvæðum hætti og síðan er bara að sjá hvort að það virki þegar við erum búin að reikna þetta allt út, hvort að niðurstöðurnar eru jafnmyndarlegar og menn vilja vera láta. Það er ekki alveg víst að svo sé þegar við erum búin að reikna dæmið út til enda.“

Á ruv.is segir einnig:

„Ólafía kveðst vera frekar bjartsýn. „Enda líka verðum við að vera það. Við verðum að fara að vinna þetta mál með þeim hætti að það leiði hér til einhverra samninga. Annað á bara ekki að vera í boði.““

Í þessum orðum fólst of mikill samningsvilji að mati gamalreyndra verkalýðsforkólfa. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sló á putta Ólafíu og sagði í kvöldfréttum að tillaga SA væri „hugleiðingar“. Hann taldi „nokkuð ljóst“ að „mikil vinna“ væri „eftir áður en menn eru búnir að finna einhvern enda í samning“.

Vonandi tekst verkalýðsforystunni að stilla saman strengi og koma í veg fyrir að metingur innan raða hennar bitni á launþegum og þjóðarbúinu.