21.5.2015 19:40

Fimmtudagur 21. 05. 15

Framgangur stjórnarandstöðunnar á alþingi er á þann veg að æ fleirum verður ljóst að hún er með öllu ótæk til málefnalegs samstarfs þar sem virtar eru almennar leikreglur. Engu er líkara en runnið hafi á stjórnarandstæðinga æði sem mótast af fylgisaukningu Pírata. Þeir sækja illa fundi þingnefnda og taka helst ekki afstöðu til mála í atkvæðagreiðslum af því að þeir hafa ekki kynnt sér þingmálin. Rökrétt skref fyrir þá sem líta þingstörf þessum augum er að standa í ræðustól og tala ekki um annað en fundarstjórn forseta af því að þeir neita að hlíta henni.

Sjá má hér á dagbókarsíðunni að hinn 13. maí vitnaði ég til þess sem Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), sagði við fréttamann ríkisútvarpsins daginn áður þegar hún taldi atvinnurekendur hafa veitt henni mikinn glaðning við samningsborðið.

Á ruv.is sagði einnig hinn 12. maæi 2015:

„Ólafía kveðst vera frekar bjartsýn. „Enda líka verðum við að vera það. Við verðum að fara að vinna þetta mál með þeim hætti að það leiði hér til einhverra samninga. Annað á bara ekki að vera í boði.““

Nú liggur fyrir að aðeins 14% félagsmanna VR veita Ólafíu umboð til verkfalls. Bjartsýni hennar um nýjan samning hvarf allt í einu eins og dögg fyrir sólu. Miðvikudaginn 20. maí var haft eftir Ólafíu á forsíðu Morgunblaðsins að atvinnurekendur hefðu hafnað tillögum verkalýðshreyfingarinnar, upp úr viðræðunum hefði slitnað. Samtök atvinnuveganna sögðu þetta rangt hjá Ólafíu.

Ætli Ólafía B. Rafnsdóttir og félagar að steypa umbjóðendum sínum í verkfall á þeim veika grunni sem við blasir í málflutningi þeirra og litlum verkfallsstuðningi innan einstakra félaga sannast enn sú kenning að hér sé ekki um annað en flokkspólitískar æfingar að ræða.

Vegna sundurlyndis ákvað Starfsgreinasambandið að fresta boðuðum verkföllum. Vilji Ólafía B. Rafnsdóttir halda VR sameinuðu að baki sér ber henni að semja en ekki ganga fram á völlinn með misvísandi yfirlýsingar sem eru til þess eins fallnar að gera illt verra.

Það er sama hvort litið er til alþingis eða verkalýðshreyfingarinnar, stjórnarandstæðingar heyja örvæntingarfulla baráttu án þess að nokkur sé nokkru nær um markmið þeirra – annað en að vera á móti og koma illu til leiðar.