Fimmtudagur 14. 05. 15
Þáttur minn á ÍNN frá í gær þar sem ég ræði við Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjón á Suðurnesjum, er kominn á netið og má sjá hann hér.
„Trúir fólk því í alvöru að verðbólga verði 2,5% til lengdar þegar laun eru að hækka um tugi prósenta?“ spurði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, við kynningu á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar miðvikudaginn 13. maí.
Sagt er frá ummælunum í Morgunblaðinu í dag og þau eru borin undir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, sem sagði að gagnrýni frá seðlabankanum á launakröfur „vinnumarkaðarins“ eins og segir í blaðinu væri „ekki ný af nálinni“ og hann vísaði henni á bug með þessum orðum:
„Það er dálítið skrítið að heyra þetta núna. Þetta hefur verið í gangi síðan í mars í fyrra. Ekki heyrðist mikið í Seðlabankanum á meðan ríki og sveitarfélög sömdu við hluta sinna starfsmanna um svona hækkanir. Það er of seint í rassinn gripið hjá bankanum að fara að vekja þetta mál upp núna.
Bankinn hefur alltaf sagt að ef allir sitji hjá þá sé það allt í lagi. Það er veruleiki sem hann getur talið sér trú um að sé til einhvers staðar, ég þekki ekki þann veruleika. Þetta er þá einhver staða sem stjórnvöld hafa komið okkur í. Almennt launafólk er ekki tilbúið til að axla þennan kaleik eitt. Hafi Seðlabankinn haft af þessu áhyggjur þá finnst mér það heldur seint fram komið.
Ef bankinn ætlar að verða trúverðugur þá væri mjög gott ef hann væri samkvæmur sjálfum sér. Það hefur hann ekki verið á undanförnum árum. Ég sé ekki neina breytingu á því.“
Þetta eru furðulega illskeytt viðbrögð við ábendingu frá þeim sem er skylt að líta á fjármálastöðugleika og segja álit sitt á hvert stefnir í þjóðarbúskapnum. Boðskapur Gylfa um að allt færi hér til betri vegar ef gengið yrði í ESB hefur oft verið undarlegur og innantómur. Þá hefur hann lengi talað niður krónuna eins og það sé eitthvað náttúrulögmál að hún veikist, staðreynd er að hún sveigist, bognar og brotnar undan álagi á hana af þeim sem tala eins og Gylfi gerir í hinum tilvitnuðu orðum. Allt er einhverjum öðrum að kenna er hann þó í forystu fyrir öðrum aðilanum sem nú hefur í hendi sér að gera kjarasamning sem setur ekki allt á annan endann.