20.5.2015 18:00

Miðvikudagur 20. 05. 15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Lindu Rós Michaelsdóttur, kennara við Menntaskólann í Reykjavík (MR). Tilefni þess að ég bað hana að koma í þáttinn til mín er ákvörðunin um að framhaldsskólanám eigi að vera þrjú ár. Á grundvelli hennar fær MR nú í síðasta sinn heimild til að rita inn nemendur í fjögurra ára nám til stúdentsprófs.

Mér er undrunarefni hve litlar opinberar umræður hafa orðið um þessa breytingu á framhaldsskólanum. Hún var vissulega til skoðunar þegar ég var menntamálaráðherra fyrir 20 árum. Við fyrstu sýn þótti mér hún góðra gjalda verð en snerist síðan hugur við nánari athugun vegna þess að ég taldi sveigjanleika og frjálsræði innan framhaldsskólans mikilvægara markmið. Að því sé kastað fyrir róða í þágu einsleitni er miður eins og rækilega kemur fram í samtali okkar Lindu Rósar.

Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 og er hann síðan á dagskrá á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun, þeir sem eru með flakkara Símans geta horft á hann hvenær sem þeir vilja eftir klukkan 20.00 í kvöld.

Þegar ég ræddi við Lindu Rós kom í hugann hve takmarkaðar opinberar umræður eru um þessar mundir um meginstefnuna í menntamálum. Fréttir berast um að ákvarðanir séu teknar um framtíð skóla í eigu ríkisins án þess að þeir sem hlut eiga að máli sem kennarar og nemendur hafi verið með í ráðum svo að ekki sé minnst á bæjar- eða sveitarstjórnir eins og kemur fram í umræðum um Iðnskólann í Hafnarfirði eða sameiningu skóla á norðurlandi eystra.

Þetta eru stórpólitískar ákvarðanir um fjölmenna opinbera vinnustaði. Þær ganga ekki upp án samráðs og samvinnu. Buslugangurinn í kringum Fiskistofu og flutning hennar ætti að vera ráðherrum og ráðuneytum víti til varnaðar.