24.5.2015 19:50

Sunnudagur 24. 05. 15

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, situr undir vaxandi ámæli innan eigin raða vegna þess hve sundurlyndi er þar mikið. Skortur er á samstöðu. Forystumenn einstakra félaga eða sambanda vilja leysa málin fyrir sinn hóp í stað þess að leiða hann út í verkfall. Innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur vilja til dæmis aðeins 14% að stofnað sé til verkfalls til að knýja á um kjarasamninga. Þar situr óreyndur formaður sem sveiflast hefur í yfirlýsingum sínum um hvort stefni í rétta eða ranga átt í kjaraviðræðunum.

Hina sundruðu stöðu í baklandi ASÍ-forystunnar verður að hafa í huga þegar Gylfi sækir fram á völlinn í fréttum ríkisútvarpsins klukkan 18.00 sunnudaginn 24. maí og ræðst á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fyrir „að magna fram einhver mestu verkföll sem hér hafa verið í nær 40 ár“, hvorki meira né minna. Þá sýnist Gylfa „á öllu að honum [Sigmundi Davíð] takist að gera það ef hann heldur svona áfram“.

Hvað gerði Sigmundur Davíð? Hann kaus að hafa vaðið fyrir neðan sig og sagði í útvarpssamtali sunnudaginn 24. maí að leiddu kjarasamningar til aukins kostnaðar ríkissjóðs vegna verðbólgu þýddi það „einfaldlega“ að ríkið þyrfti meiri tekjur auk þess sem ríkið yrði að leitast við að slá á verðbólgu en ekki ýta undir hana.

Þetta var orðað á þann veg í fréttum ríkisútvarpsins að forsætisráðherra teldi koma til greina „að hækka skatta á almenning ef kjarasamningum lyki með miklum launahækkunum og verðbólga fylgdi í kjölfarið“. Allt eru þetta alkunn sannindi sem ættu síst af öllu að koma forseta ASÍ í opna skjöldu.  Hann sagði hins vegar „fáheyrt að forsætisráðherra hóti fólki skattahækkunum, fylgi það eftir sínum hagsmunum, tveimur dögum áður en víðtök verkföll hefjist“. Gylfi sagði orðrétt: „Ég held að þetta hafi ekki gerst hér á Íslandi í marga marga áratugi og ég skil ekki hvers vegna forsætisráðherra er að gera þetta.“

Vissulega er vandasamt fyrir forsætisráðherra, hver sem hann er, að sigla á milli skers og báru á tíma eins og nú ríkir. Líklega er skynsamlegast fyrir Sigmund Davíð að segja sem minnst opinberlega um kjaramál á þessum viðkvæma tíma. Að ráðast á ráðherrann á þann veg sem forseti ASÍ gerði er hins vegar út í hött og skýrist aðeins af veikri stöðu Gylfa Arnbjörnssonar.