10.5.2015 20:00

Sunnudagur 10. 05. 15


Þennan dag fyrir ári sló ég fyrst í kringum bæinn í Fljótshlíðinni. Fyrir nokkrum árum hreyfði ég sláttuvélina þar fyrst 31. maí. Ætli það verði ekki þannig í ár?

Á vefsíðu Samfylkingarinnar segir að Þórunn Sveinbjarnardóttir sé „framkvæmdastýra“ flokksins en hún tók nýlega við formennsku í Bandalagi háskólamanna, BHM. Nú liggur BHM undir ámæli fyrir að félagsmenn beiti verkfallsvopninu gegn þeim sem síst geta varist. Birgir Jakobsson landlæknir sagði í fréttum ríkisútvarpsins að félagsmenn BHM, geislafræðingar, uppfylltu ekki siðferðislegar skyldur sínar með því að hafna undanþágubeiðnum. Viðbrögð forystumanna BHM við viðvörunarorðum forstjóra Landspítalans benda ekki til þess að raunsæi ríki í æðstu röðum BHM.

Þegar hlustað er á sósíalistana sem sviptu Verkamannaflokkinn sigrinum í Bretlandi má einmitt heyra sömu sjónarmið og hjá þeim sem bíta í verkfallsrendurnar hér núna. Þessum öflum var hafnað í Bretlandi og skynsamir menn innan Verkamannaflokksins vilja einnig hafna þeim innan flokksins svo að hann haldi lífi.

Hér á landi er þetta fólk í fremstu röð innan Samfylkingarinnar, meira að segja í stöðu „framkvæmdastýru“ flokksins, megi marka vefsíðu hans. (Kannski er ekki meira að marka Samfylkingarsíðuna en t.d. síðu ESB þar sem Ísland er enn sagt meðal umsóknarríki?)