30.12.2006 22:35

Laugardagur, 30. 12. 06.

Dótturdóttir okkar, sem fæddist 7. september sl. í London var skírð Rut hér hjá okkur í dag að viðstöddu fjölmenni. Séra Jón Dalbú Hróbjartsson skírði og Hörður Áskelsson lék á píanó.

Á mbl.is les ég:

„Í nótt var skotið á fjölskyldubifreið lögreglumanns á Blönduósi. Enginn var í bílnum er skotið reið af. Lögreglan telur víst að um kúlnagöt sé að ræða. Kúlan fór inn um hliðarrúðuna bílstjóramegin og út um hliðarrúðuna farþegamegin en kúlan hefur ekki fundist og engin vitni heyrðu skothvell í nótt.“

Þegar þetta er skrifað hefur ekk náðst í þann, sem vann þetta illvirki. Ómennskan lætur víða að sér kveða og ekki er unnt að afsaka hana sífellt með því, að opinbert eftirlit eða aðhald skorti. Illivirki eru á ábyrgð þeirra, sem vinna þau. Illvirkin eiga rætur í hugarfylgsnum þeirra en ekki í skorti á opinberu eftirliti. Oft virkar það eins og ódýr aflausn, þegar fjölmiðlar beina spjótum að opinberum aðilum, ef eitthvað fer úrskeiðis, í stað þess að höfða til ábyrgðar þess, sem er hinn raunverulegi skaðvaldur. Í skjóli þessa ganga menn á lagið og láta eins og þeir geti einfaldlega farið sínu fram og farið á svig við lög og reglur, af því að enginn opinber aðili er sífellt að horfa yfir öxlina á þeim. 

Í 3. hefti 2006 Lögreglumannsins tímarits Landssambands lögreglumanna ritaði ég grein, þar sem ég ræði meðal annars um nauðsyn þess að auka öryggi lögreglumanna.

Saddam Hussein einræðisherra í Írak var hengdur í nótt, eftir að hafa verið dæmdur til dauða bæði af undirrétti og áfrýjunarrétti. Samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu er dauðarefsing óheimil og ber Íslandi og öðrum aðildarríkjum sáttmálans að virða það ákvæði. Saddam hefði því aldrei hlotið þessi málagjöld í Evrópu - í Írak eins og mörgum öðrum löndum er unnt að refsa mönnum með aftöku.