28.12.2006 21:33

Fimmtudagur, 28. 12. 06.

Í dag var enn kynnt breyting á starfsemi 365 miðla, DV er skilið frá 365 og stofnað um það nýtt félag en ritstjóri verður Sigurjón M. Egilsson (sme). Af þessu tilefni mátti lesa á bloggsíðu Péturs Gunnarssonar:

„Feðgarnir sme og Janus eiga 11% í útgáfufélagi DV, Hjálmur á 49% og 365 40%. Tengslin við útgáfufélag Ísafoldar eru mikil og má segja að hafi einhvern tímann verið til Baugsmiðlar þá sé það nú þar sem Baugur í gegnum Hjálm er orðinn ráðandi eigandi í DV, Ísafold, Veggfóðri, Hér og nú og Bístró, auk þess að eiga tæplega fjórðung í 365.“

Feitletrun er mín. Skyldi Pétur ekki átta sig á því, hve mikla reiði þetta orð kallar yfir þá, sem nota það? Reiði þeirra, sem eiga Baug. Ástæðu reiðinnar hef ég aldrei skilið. Hvers vegna þykja það skammir að kenna einhvern við eiganda sinn?