10.12.2006 18:06

Sunnudagur, 10. 12. 06.

Ein af forsíðufréttum Fréttablaðsins í dag er um samkomulag ríkis og kirkju um prestssetrin, sem ritað var undir 20. október. Þar er meðal annars leyst úr ágreiningi um Þingvelli. Fréttin birtist fyrst núna í Fréttablaðinu vegna þess að frumvarp í framhaldi af samkomulaginu hefur verið lagt fram á alþingi.

Bloggarar fjalla af miklum móð um breytingar á fjölmiðlamarkaðinum. Við þessar breytingar er mest spennandi að fylgjast með breytingum á Viðskiptablaðinu. Hvarvetna njóta blöð, sem tengja vandaðar viðskiptafréttir, stjórnmál og menningarmál velgengni - nægir að nefna Börsen í Danmörku, Financial Times í Bretlandi og Wall Street Journal í Bandaríkjunum. Velgengni blaðanna byggist ekki síst á því, að þau fjalla um mál líðandi stundar af raunsæi og leggja kapp á að miðla upplýsingum. Þessi viðleitni hefur einkennt blaðamennsku Viðskiptablaðsins. Fréttir berast nú af því, að öflugir fjárfestar standi að baki fjölgun útgáfudaga blaðsins.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir staðfestir á vefsíðu sinni, að hún og eiginmaður hennar Valdimar Birgisson, sem á sínum tíma stjórnaði auglýsingadeild 365, ætli að stofna vikublað og Arna Schram, þingfréttaritari Morgunblaðsins eigi að verða aðstoðarritstjóri. Skoðun blaðsins er ein, að verða á móti að sögn Sigríðar Daggar, sem verður sjálf ritstjóri. Lengi hefur verið rætt um, að konur hafi mátt sín lítils við stjórn íslenskra blaða - þarna verður greinilega breyting. Fréttablaðið og Morgunblaðið missa jafnframt máttarstólpa úr hópi blaðamanna sinna. Enn hefur ekki verið upplýst, hvaða fjárfestar munu standa á bakvið þetta blað.

Sigurjón M. Egilsson er að láta af ritstjórn Blaðsins og hverfur þaðan með hluta starfsfólksins til að stofna nýtt blað. Ritstjórar eru ekki þaulsætnir á Blaðinu og ekkert hefur verið sagt um, hver tekur við af Sigurjóni um áramótin. Honum líkar ekki að starfa á fríblaði. Enn er óljóst, hvaða fjárfestar standa að baki því blaði, sem Sigurjón ætlar að hleypa af stokkunum.

Hvað sem líður öllum nýjum blöðum, væri þakkarvert, að þau, sem gefin eru út, hvort heldur sem fríblöð eða í áskrift, bærust með sæmilegum skilum. Reynsla mín er sú, að sá þjónustuþáttur í blaðaútgáfunni hafi hríðversnað. Væri um annan varning að ræða, yrði litið á hann sem stórgallaðan, því að blöð án góðs dreifikerfis eru lítils virði.