6.12.2006 21:15

Miðvikudagur, 06. 12. 06.

Komum til Aþenu skömmu eftir miðnætti aðfaranótt 6. desember,

Höfðum tíma fyrir hádegi til að fara upp á Akrapólis og síðan að Agórunni.

Fundir ATA hófust síðan síðdegis. Varnarmálaráðherra Grikkja flutti aðalræðuna auk þess sem sagt var ítarlega frá nýlegum leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Riga og þeirri stefnu, sem þar var mótuð.

Ég sé á mbl.is, að Jón Baldvin Hannibalsson hefur farið mikinn á fundi í Háskóla Íslands um hlerunarmálin. Þegar rætt er um hlut þingmanna og viðleitni lögreglu á þessum árum til að halda uppi allsherjarreglu má ekki gleyma því, að þingmennirnir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason sendu boð úr þinghúsinu 30. mars 1949, sem urðu til þess, að ráðist var að alþingishúsinu.

12 árum síðar eða árið 1961, þegar blásið var til mikils andróðurs gegn samningum við Breta um 12 mílurnar, hefur lögreglan viljað vera við öllu búin og að ósk hennar veitti sakadómari heimild til hlerana. Ekkert liggur fyrir um það, hvort þær heimildir voru nýttar. Að sjálfsögðu má eftir á deila um, hvort þessar heimildir hafi verið nauðsynlegar eða ekki. Ekkert liggur fyrir um, að þær hafi spillt fyrir pólitískum samskiptum forráðamanna Sjálfstæðisflokksins og forystumanna Alþýðusambands Íslands, sem nokkrum misserum síðar stóðu að hinu sögulega júní-samkomulagi, sem talið er marka þáttaskil í samskiptum Sjálfstæðisflokksins og verkalýðshreyfingarinnar.

Það er mikil einföldun á gangi mála árið 1968 að láta eins og við því einu hafi verið búist, að grískir mótmælendur vegna NATO-fundar ætluðu að kasta tómötum í gríska ráðherra á fundinum. Þórður Björnsson, sakadómari, sem hafði verið borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og eindreginn andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, kvað upp úrskurð um heimild til hlerana 1968.

Í öllum tilvikum, sem hér um ræðir, var farið að lögum og leitað til dómara, sem kvað upp úrskurð sinn um heimildir til hlerunar á grundvelli laga. Engir slíkir úrskurðir hlutlauss þriðja aðila lágu fyrir, þegar Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, fór þess á leit við embættismann ráðuneytis síns, að hann kannaði, hvort finna mætti í skjölum Stasi gögn um Íslendinga, þar á meðal meðráðherra hans í ríkisstjórn, Svavar Gestsson.

Í skýrslum, sem ég hef kynnt um öryggis- og greiningarþjónustu, er gert ráð fyrir, að ætíð sé leitað heimildar dómara til að rannsaka einkahagi fólks eða fylgjast með þeim og þeir, sem það gera, sæti eftirliti þingnefndar. Í ljósi sögunnar kemur gagnrýni Jóns Baldvins á leynimakk stjórnvalda úr hörðustu átt.