15.12.2006 21:12

Föstudagur, 15. 12. 06.

Egill Helgason segir á vefsíðu sinni:

„Sökum þess hvað ég horfi sjaldan á sjónvarp sá ég ekki einvígi Björns Inga og Dags B. í sjónvarpinu í gær. Hef eiginlega bara lýsingu Björns Bjarnasonar á því. Björn segir að Björn Ingi hafi ekki látið þá Dag og Helga Seljan "eiga neitt inni hjá sér".

Þetta er reyndar hugtak sem Björn notar oft - „að láta ekki eiga inni hjá sér". Hvers konar pólitík er það annars? Eitthvað sem mun duga landi og þjóð eða kannski bara gamaldags þvergirðingur? Yrði maður ekki ruglaður ef maður ætlaði að svara fullum hálsi öllum sem er uppsigað við mann?“

Þegar ég las þetta, velti ég því fyrir mér, hvort ég notaði þetta „hugtak“ oft. Ég er ekki viss. Gagnrýni Egils er hins vegar í ætt við þá skoðun hans, að ég megi ekki nota orðið „andstæðingur“, af því að einhverjir, sem ég vísa til með þessu orði, kunni að hafa ánægju af að sjá sömu kvikmynd og höfðar til mín. Mér sýnist, að Egill sé ekki eins hrifinn af nýju Bond-myndinni og ég. Má ég þá kalla Egil andstæðing?

Egill hefur atvinnu af því að etja mönnum saman í sjónvarpi og kynda undir orðaskipti þeirra. Gerir hann það í þágu lands og þjóðar? Er hann kannski bara að ýta undir þvergirðingshátt í gömlum stíl? Skýringin á því, að ég er hættur að horfa á Silfur Egils er líklega sú, að ég vil ekki verða ruglaður.

Það kemur mér ekki á óvart, að kvikmyndin The Departed (Hinir framliðnu) fái fimm tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, þar á meðal fyrir besta handrit. Ég varð undrandi, þegar ég las gagnrýni í Morgunblaðinu um myndina fyrir skömmu og gagnrýnandinn kvartaði undan því, að handritið væri „gloppótt.“ Hvaða kvarði skyldi hafa verið notaður í því tilviki?