19.12.2006 23:46

Þriðjudagur 19. 12. 06.

Eftir að ég var kominn heim úr sundi rúmlega 07.00 í morgun hringdi Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, í mig vegna þess að skip hefði strandað sunnan við Sandgerði og óttast væri um 7 til 8 skipverja af danska gæsluskipinu Triton, sem hefðu farið á gúmmíbát til að veita aðstoð. Þyrlusveit landheglisgæslunnar vann mikið afrek við bjögun mannanna. Í kvöldfréttum RÚV birtist þessi frétt:

„Allar aðgerðir á strandstað við Stafnesvita munu liggja niðri í nótt að því er fram kemur í fréttatilkynningu sem birtist á Lögregluvefnum í kvöld. Þar segir að ef aðstæður haldist óbreyttar í nótt og skipið verði kyrrt á sama stað í fyrramálið verði undirbúnar aðgerðir til að dæla olíunni úr skipinu í land.

Flutningaskipið Wilzon Muuga strandaði við Stafnesvita í nótt. Öllum skipverjum var bjargað í land um hádegið með þyrlu og er skipið nú mannlaust. Unnið er að lagningu vegar niður í fjöru við strandstaðinn, svo koma megi að tækjum til að ná olíu úr skipinu.

Björgunarmenn óttast að skipið brotni í briminu í nótt, eða næstu daga og olía leki úr því. Vonskuveður hefur verið á strandstað í kvöld. Skipið er flatbotna og er botn þess illa farinn og gat komið á að minnsta kosti þrjá botntanka.

Í skipinu munu vera allt að 120 tonn af þunnri svartolíu og um 14 tonn af gasolíu. Hollustuvernd ríkisins mun stýra mengunarvarnaraðgerðum í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og Almannavarnardeild ríkislögreglustjórans.
Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Olíudreifingar sitja nú á fundi og fara yfir stöðuna á strandstað. Davíð Egilsson forstjóri Umhverfistofnunar sagði í samtali við fréttastofu rétt fyrir fréttir að reynt yrði að koma slöngu í skipið og morgun og þess freistað að ná olíunni úr skipinu. Slæmt veður og lítil dagsbirta geri starfinu þó mjög erfitt fyrir. Allt nema að hætta mannslífum verður gert til að ná olíunni úr skipinu. Davíð segir suma olíutanka aðgengilega, en erfitt verði að komast í aðra.  

Skipið  snerist um 10 til 15 gráður á flóðinu í kvöld. Magnús Daðason lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli sem vaktar skipið, ásamt björgunarsveitarmönnum frá Landsbjörgu, sagði í samtali við fréttastofu Sjónvarps skömmu fyrir fréttir að flætt hafi undan skipinu og það sitji nú nokkuð stöðugt. Skipið verður vaktað í alla nótt.

Menn á jarðýtum og gröfum vinna fram eftir nóttu að vegagerð á staðnum svo hægt sé að koma dælum og tækjabúnaði að skipinu á morgun. Það spáir svipuðu veðri og nú næstu daga, sem kann að torvelda aðgerðir.“