12.12.2006 21:34

Þriðjudagur, 12. 12. 06.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ræddu saman í Kastljósi í kvöld undir stjórn Sigmars Guðmundssonar. Tónninn, sem stjórnandinn gaf í þættinum, ekki í samræmi við tilefnið, þegar forystumenn stærstu stjórnmálaflokkanna hittast. Spurningarnar voru um of sniðnar að talnastagli í stað þess að líta á megnlínur í stjórnmálunum.

Geir vildi beina umræðunum að þessum stóru línum með því að benda á, hve mikið hefði áunnist við stjórn ríkisfjármála með greiðslu skulda og þar með auknu svigrúmi til að lækka skatta og til að nýta opinbera fjármuni í þágu borgaranna. Þessar stóru línur og hinn mikli árangur í atvinnu- og efnahagsmálum eru eitur í beinum Ingibjargar Sólrúnar og í hróplegri andstöðu við það, hvernig R-listinn, sem lengst laut hennar stjórn, skildi við Reykjavíkurborg - skulduga upp fyrir haus með kröfur um stórgreiðslur í vexti og afborgarinnar. Í því ljósi var furðulegt að heyra Ingibjörgu Sólrúnu tala í hneykslunartón um, að ríkisstjórnin leggði fram nýjar áætlanir á mörgum sviðum. Ríkisstjórnin hefur efni á að gera slíkar tillögur.

Í öðru orðinu býsnaðist Ingibjörg Sólrún yfir því, að umsvif ríkisins væru orðin alltof miki, í hinu kvartaði hún undan því, að við hefðum ekki mestu samneyslu af Norðurlandaþjóðunum með alls kyns millifærslum að tilhlutan ríkissjóðs.

Þegar horfið var frá umræðum um tölur og skatta, datt Sigmar niður á hvalamálið - hann minntist hvorki á varnarmál né Evrópusamstarfið.

Nokkrar umræður hafa verið um gildi fríblaða og áskriftarblaða og mismunandi efnistök þessara blaða, hlutverk og áhrifamátt. Sýnist sitt hverjum í því efni. Það er ekki síður ástæða að velta fyrir sér, hvaða aðferðum stjórnendur umræðuþátta í sjónvarpi beita til að leiða menn saman eða ólík sjónarmið. Einfaldasta aðferðin er að stofna til deilna um prósentutölur í einhverjum nýlegum skýrslum. Raunalegasta aðferðin er að stjórnandinn setji sig reiðistellingar í því skyni að stilla viðmælanda sínum upp við vegg. Ég mæli enn með Tim Russert í Meet the Press sem fyrirmynd fyrir stjórnendur umræðuþátta. Hann kallar á viðmælendur sína til að fá álit þeirra á skipulegan, hógværan og málefnalegan hátt.