Fimmtudagur, 07. 12. 06.
Jaap de Hoof Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði ATA-fundinn í morgun í gegnum fjarfundabúnað, þar sem hann átti ekki heimangengt vegna yfirmannaskipta hjá herstjórninni, Shape, í Mons. Mér kom á óvart, hve ómyrkur hann var í tali um vandræðin í stofnanalegum samskiptum NATO og Evrópusambandsins. Hann sagði óformlega fundi geta skilað árangri en formleg samskipti væru mjög erfið. Hann sagðist vera andvígur því, að NATO yrði einskonar almheimslögregla en hins vegar þyrfti bandalagið að eignast samstarfsaðila um heim allan.
Ég flutti ræðu um orkuöryggi, orkuvinnslu á Norðurslóðum og NATO en síðdegis var Christopher Coker, prófessor við London School of Economics, sammála þeirri skoðun minni, að orkuöryggi og trygging þess hlyti að verða höfuðviðfangsefni NATO.
Prófessorinn benti á, að Kínverjar væru helstu keppinautar Bandaríkjanna um orkukaup en þeir stæðu betur að vígi en Babdaríkjamenn vegna þess hve þeir ættu mikið af kolanámum. Þeir væru einnig á höttunum eftir olíu í Afríku. Þess vegna létu kínversk stjórnvöld sér svona annt um stjórnvöld í Súdan, þrátt fyrir blóðugan feril þeirra í Darfur. Þá segðu Nígeríumenn, að þeir gætu ekki átt olíuviðskipti við Bandaríkjamenn, án þess að vera spurðir um baráttu gegn hryðjuverkum, og ekki við Evrópusambandið, án þess að vera spurðir um mannréttindamál, hins vegar spyrðu Kínverjar aldrei um annað en verð og afhendingartíma olíunnar.
Ég sé, að fleiri hafi haft áhuga á að fylgjast með því, sem Silja Bára hjá alþjóðastofnun háskólans hefur til öryggismálanna að leggja.