27.12.2006 22:42

Miðvikudagur, 27. 12. 06.

Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er tekið undir með þeim, sem eru andvígir því, að spilakassastofa undir handarjaðri happdrættis Háskóla Íslands fái samastað í Mjóddinni, en borgarráð hefur einróma samþykkt áskorun um, að fallið verði frá þeirri ráðagerð. Borgaryfirvöld geta ráðið úrslitum í slíkum málum með skipulagsákvörðunum og er þess að vænta, að farið verði að áskorun þeirra.

Afstaða Morgunblaðsins til fjáröflunar af þessu tagi er næsta grunnhyggin, þegar litið er til umræðna um stöðu happdrætta, spilakassa og fjárhættuspils í Evrópu og Norður-Ameríku.

Í Bandaríkjunum hafa sum ríkisþing samþykkt, að ekki megi nota kort til greiðslu í netspilamennsku, þegar henni er haldið úti af fyrirtækjum utan Bandaríkjanna.

Fyrir EFTA-dómstólnum og dómstóli Evrópusambandsins eru nú mál, sem miða að því að brjóta á bak aftur vald stjórnvalda einstakra Evrópulanda, þjóðþinga og ríkisstjórna, til að ákveða skipan þessara mála innan landamæra sinna. Spilafyrirtæki í einkaeign telja það brot á reglunum um fjórfrelsið, að þau hafi ekki óheft leyfi til að reka starfsemi sína, hvar sem þeim hentar.  Þau vilja ekki frekar en Morgunblaðið að háskóli, Rauði krossinn, SÁÁ, íþróttahreyfingin, öryrkjabandalög eða ungmennafélög sitji að tekjum af spilastarfsemi. Fyrirtækin vilja ná þessu í eigin vasa.

Ef ekki er vilji til að heimila þjóðþingum að ráðstafa tekjum af spilamennsku til sérgreindra verkefna, heldur eigi að láta alþjóðlegum spilafyrirtækjum það alfarið eftir að hagnast á þessum markaði, er augljóst að hækka verður skatta til að bæta þjóðþrifafyrirtækjunum tekjutapið.

Eitt er að andmæla staðarvali fyrir spilastofur, annað að vilja spilastarfsemi í þágu góðra málefna feiga. Summa lastanna í spilamennskunni er konstant eins og á svo mörgum sviðum.