21.12.2006 20:58

Fimmtudagur, 21. 12. 06.

Bogi Nilsson ríkissaksóknari sendi í dag frá sér tilkynningu um, að rannsókn vegna ásakana Jóns Baldvins Hannibalssonar og Árna Páls Árnasonar um að símar þeirra hefðu verið hleraðir væri lokið. Ríkissaksóknari telur, að fyrirliggjandi rannsóknargögn gefi ekki tilefni til þess að rannsókn á málinu verði haldið áfram. Með öðrum orðum, að ekkert hafi komið fram, sem styður fullyrðingar þeirra Jóns Baldvins og Árna Páls.

Í Kastljósi í kvöld var rætt í síma við Jón Baldvin, en hann var í Riga. Svo virtist sem hann teldi rannsóknina á vegum ríkissaksóknara engu skipta en hann sagðist þó vera „yfirvegaður“, sem gladdi áhorfendur. Undir lok máls síns lét hann að því liggja, að símamenn og lögreglumenn segðu ekki sannleikann, af því að þeir hefðu stundað lögbrot í störfum sínum við hleranir. Sambærilegar ásakanir í garð þessara opinberu starfsmanna hafa ratað inn í yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Að Jón Baldvin skuli halda þeim áfram, eftir að niðurstaða ríkissaksóknara hefur verið birt, sýnir mikla forherðingu. Í umræðum um hleranamálin hefur hvergi komið nein haldföst vísbending um, að símar kunni að hafa verið hleraðir án heimildar dómara. Umræðurnar hafa hins vegar leitt í ljós, að Jón Baldvin Hannibalsson beindi því sem utanríkisráðherra til starfsmanns utanríkisráðuneytisins, að hann kannaði STASI skjöl og þar með sérstaklega hvort Svavar Gestsson meðráðherra hans kæmi þar við sögu. Hvaða heimild hafði Jón Baldvin til slíkra fyrirmæla?

Síðdegis fór ég um borð í danska gæsluskipið Triton í Reykjavíkurhöfn hitti Ulf Berthelsen skipherra og Lasse Reimann, sendiherra Dana á Íslandi. Með mér voru Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Björn Brekkan Björnsson þyrluflugmaður og Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður en þeir voru í þyrlunni, sem bjargaði dönsku sjóliðunum sjö og seig Auðunn niður til þeirra. Ég vottaði skipherranum og áhöfn hans samúð og síðan ræddum við aðstæður á slysstað og björgunarafrek landhelgisgæslumanna í um það bil klukkustund.

Klukkan 17.15 kom fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík saman í Valhöll og samþykkti einum rómi og umræðulaust framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum - ég er í öðru sæti í Reykjavík suður á eftir Geir H. Haarde.