11.12.2006 20:20

Mánudagur 11. 12. 06.

Um þessar mundir er hagvöxtur mestur í Eistlandi af 25 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þeir, sem leita orsakanna, fyrir þessum mikla og öra vexti, staldra við upphafsárin, eftir að Eistlendingar komust undan áþján Sovétríkjanna og hagstjórn marxista. Mart Laar, ungur sagnfræðingur, varð forsætisráðherra snemma á tíunda áratugnum. Hann hafði lesið eina bók um efnahagsmál, það er bók Miltons Friedmans Free to Choose. Hann viðurkennir nú, að hann hafi ekki haft neitt vit á efnahagsmálum og þess vegna hafi hann einfaldlega talið, að í bók sinni væri Friedman að lýsa kenninngum, sem hefði verið hrundið í framkvæmd á Vesturlöndum, þess vegna hefði hann ákveðið að taka þær upp í Eistlandi. Fyrir bragðið hafa Eistlendingar búið við róttæka efnahagsstefnu, sem hefur komið þeim í fremstu röð.

Í Eistlandi eru áreiðanlega ekki allir á einu máli um ágæti þeirrar efnahagsstefnu, sem fylgt hefur verið, þótt hún hafi skilað þjóðinni svo hratt fram á veg. Rifjast þá upp, þegar dáðst var að glæsilegum árangri tékkneskra skólabarna í alþjóðlegri samanburðarkönnun á námsárangri, og síðan voru birt viðtöl við nemendurna, sem kvörtuðu sáran undan kennsluaðferðunum, sem beitt var til að þjálfa þau til þessa árangurs. Í öðrum löndum var hins vegar rætt um, hvernig ætti að ná sama árangri og Tékkar hefðu náð, það yrði að læra aðferðir þeirra til að beita þeim.

Allir alþjóðlegir mælikvarðar sýna, að hagstjórnaraðferðir undanfarinna ára hafa skilað okkur Íslendingum í fremstu röð meðal þjóða. Raunar hefur vöxturinn verið svo ör og mikill hér, að samanburður við aðrar þjóðir um hag okkar og úrræði til að bæta hann enn frekar hefur lítið gildi. Þegar breytingar verða jafnmiklar og örar og hér hefur verið, er óhjákvæmilegt að bil breikki milli þeirra, sem hraðast fara og hinna. Við þessar aðstæður á við hið fornkveðna að jafna upp á við en ekki taka mið af þjóðum, þar sem óttinn við breytingar heldur aftur af framförum.