8.12.2006 16:08

Föstudagur, 08. 12. 06.

ATA-fundinum lauk í Aþenu síðdegis í dag. Á vegum NATO og samstarfsríkja þess eru nú 52. 500 menn undir vopnum eða að sinna hernaðarlegum verkefnum og þjálfun í Evrópu, Asíu og Afríku. Það er engin furða, þótt talsmenn bandalagsins keppist við að árétta við þessar aðstæður, að bandalagið gegni ekki hlutverki alheimslögreglu, því að svo mætti ætla að óathuguðu máli.

Baker/Hamilton skýrslan, sem birt var á miðvikudag í Bandaríkjunum, og hefur að geyma tillögur í 79 liðum um það, hvernig Bandaríkjastjórn skuli taka á málum í Írak, er líklega meira virði fyrir demókrata í Bandaríkjunum en repúblíkana, því að demókrata skorti alfarið stefnu í málefnum Íraks en repúblíkanar studdu forseta sinn, þótt þeir hafi orðið honum stöðugt tregari í taumi. Forsetinn setur fyrirvara við ýmsar tillögur í skýrslunni en hún verður vafalaust stefnumarkandi fyrir hann að lokum eins og Bandaríkjaþing.

Lee Hamilton, fyrrverandi þingmann demókrata, hittum við utanríkisnefndarmenn frá Íslandi snemma árs 1995, þegar nefndin fór í fyrstu ferð sína til Washington. Hamilton var þá formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

James Baker hitti ég á dögunum í Washington, þegar ég var staddur í bókabúð, þar sem hann áritaði nýja sjálfsævisögu sína. Þar var hann einmitt spurður um störf Íraks-nefndarinnar en varðist allra frétta um hana. Ég hef gluggað í bók Bakers og bregður hann ljósi á margt í bandarískum stjórnarháttum, enda hefur hann oft verið kallaður á vettvang, þegar mikið er í húfi fyrir repúblíkana.

Ég las í franska vikuritinu l'Express að þar á bæ eru menn farnir að tala um netið og bloggarana sem fimmta valdið, við hlið löggjafarvalds, framkvæmdavalds, dómsvalds og fjölmiðlavalds. Mér sýnist krafturinn í íslensku bloggi vera að magnast, þegar mbl.is dregur að sér alla höfuðpaurana. Á sama tíma birtast síðan fréttir um, að ætlunin sé að stofna nýtt vikublað, nýtt dagblað og Viðskiptablaðið ætli að fjölga útgáfudögum. Stenst þessi þverstæða? Er það fjárhagslegur ávinningur eða eitthvað annað, sem ræður þessum áhuga á miðlun upplýsinga? Örugglega ekki hjá bloggurunum - og enginn hagnaður virðist af íslenskri blaðaútgáfu um þessar mundir.