13.12.2006 20:22

Miðvikudagur, 13. 12. 06.

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lét þá Helga Seljan, þáttarstjórnanda, eða Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, ekki eiga neitt inni hjá sér í Kastljósinu í kvöld, þegar gerð var hörð hríð að honum með ásökunum um, að framsóknarmenn hefðu hlotið verkefna-bitlinga hjá Reykjavíkurborg í skjóli Björns Inga.

Eftir að Björn Ingi vék að því við Helga, að hann hefði verið ráðinn til starfa í Kastljósinu án auglýsingar, svo að hann tæki dæmi af því, hvernig ráðið væri til starfa hjá opinberum aðilum, hvarf broddurinn úr spurningum Helga. Þegar Björn Ingi sagði eðlilegt, að menn huguðu að starfi Dags B. Eggertssonar í Háskólanum í Reykjavík, eftir að fyrir lægi, að hann hefði gefið háskólanum eina af dýrmætustu lóðum borgarinnar, átti Dagur varla meira erindi í þáttinn vegna hneykslunar.

Sú athugasemd Björns Inga var fyllilega réttmæt í þættinum, að ekki hafi verið einleikið, hve æðstu embættismenn Reykjavíkurborgar létu mikið að sér kveða í formannskjörinu í Samfylkingunni til stuðnings Ingibjörgu Sólrúnu gegn Össuri Skarphéðinssyni.

Umræðurnar voru óvenjulega líflegar og þróuðust á annan veg en Helgi Seljan vildi, vegna þess að Björn Ingi tók svo rösklegt frumkvæði í þættinum. Ekki var nóg með, að hann stjórnaði umræðunum og segðist eiga ríkan þátt í að stjórna borginni, heldur sagðist hann einnig hafa ráðið Árna Pál Árnason, sem nú er þingmannsefni Samfylkingarinnar, til að vera ritara nefndar forsætisráðherra um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hann liti ekki aðeins á flokksskírteini, þegar hann væri að velja fólk. Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra, þegar þetta gerðist.