3.12.2006 18:46

Sunnudagur, 03. 12. 06.

Það var slagveður í Amsterdam í morgun þegar við fórum á tónleika í Constergebouw klukkan 11.00 og hlýddum á European Baroque Orchestra en Lars Ulrik Mortensen stjórnaði henni og lék á sembal um leið. Salurinn er fallegur og hljómburðurinn einstakur.

Síðan fórum við í Rijksmuseum og skoðuðum verk eftir Rembrant og fleiri meistara. Mikill mannfjöldi var bæði á tónleikunum og í safninu - Hollendingar og gestir þeirra nýta sunnudaga gerinilega vel til menningariðkana.

Þegar við komum síðan sídegis til Brussel með lest blöstu við okkur miklu meiri jólaljós og skreytingar þar en í Amsterdam. Sama slagveðrið er hér í Brussel.

Lestarferðin á milli Amsterdam og Brussel tekur um þrjá tíma og á leiðinni las ég meðal annars The Sunday Telegraph þar sem enn er mikið fjallað um geislavirkamorðið á fyrrverandi KGB-manninum í London og sagt frá því, að rússneska leyniþjónustan sé ekki umsvifaminni núna í Bretlandi en KGB var í kalda stríðinu. Viðfangsefnin snúist mest um að verða sér úti um upplýsingar um landflótta Rússa og um það, sem er að gerast í iðnaði og viðskiptum.