9.12.2006 18:55

Laugardagur, 09. 12. 06.

Héldum af stað frá Aþenu í morgun klukkan 09.00 að þarlendum tíma, 07.00 að íslenskum. Fórum í gegnum Amsterdam og höfðum rúma klukkustund á milli véla, en komum samt töskulaus heim með Icelandair. Virtust margir fleiri Amsterdam-farþegar í sömu sporum. Ég valdi frekar Schipol en Heathrow til að vera öruggur með töskuna - það er engu að treysta í þessu efni. Engin skýring var gefin á hvarfi eða seinkun farangursins.

Mér þótti forvitnilegt að lesa Lesbók Morgunblaðsins í vélinni á heimleið. Gísli Gunnarsson sagnfræðingur talar um komu grískra mótmælenda hingað vegna utanríkisráðherrafundar NATO 1968 eins og þeir hafi verið með tómata í lautarferð og menn hafi komið saman fyrir framan fundarstað ráðherranna til að æfa söng.

Ólafur Hannibalsson skrifar um lögfræðilegan ágreining um, hvernig staðið skuli að úrskurði hins opinbera um hleranir, án þess að lýsa því, hvernig lögin um þetta breyttust með setningu laga um meðferð opinberra mála. Grein hans er dæmi um notkun á hálfsannleik til að ýta undir rangar ályktanir og til að kasta rýrð á lögfræðinga, sem gættu þess jafnan að fara að réttum lögum. Óvirðingin sem Ólafur sýnir Valdimar Stefánssyni og Baldri Möller og minningu þeirra er honum ekki til álitsauka og styrkir ekki málstað hans.

Þá sá ég í Fréttablaðinu að Þráinn Bertelsson vill, að mér sé hlíft við spurningum um hleranir, af því að ég sé vanhæfur til að ræða málið. Ég þakka Þráni umhyggjuna en ég tel mig síður en svo vanhæfan til að ræða þessi mál. Þráinn segist aðeins einu sinni hafa fengið „almennilegan styrk“ til kvikmyndagerðar, en þá hafi Svavar Gestsson verið menntamálaráðherra. Þráinn telur, að úthlutunarnefndin hafi óttast Svavar og því veitt sér styrk. Hvers vegna minnist Þráinn ekki á heiðurslaun listamanna? Fróðlegt væri að lesa lýsingu Þráins á því, hvernig hann komst á þann lista.