17.12.2006 14:15

Sunnudagur 17. 12. 06.

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur nýlega sent frá sér dómareifanir mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg fyrir janúar til júní árið 2006. Í heftinu eru 34 dómar reifaðir og er fróðlegt að lesa þessar reifanir með það í huga, að mannréttindasáttmálinn hefur verið lögfestur hér og talið er að niðurstöður dómaranna í Strassborg hafi mótandi áhrif á viðhorf dómara í aðildarlöndunum og túlkun þeirra á ákvæðum sáttmálans.

Ég hef vakið máls á því oftar en einu snni, að gjalda beri varhug við þeirri þróun í Strassborg og hjá öðrum alþjóðadómstólum, að með framsækinni lagatúlkun seilist dómarar inn á verksvið löggjafans. Hér á landi hafa margir lögfróðir menn gert lítið úr þeim varnaðarorðum og krafist meiri hollustu við dómarana í Strassborg.

Björg Thorarensen prófessor vekur máls á því í formála þessa heftis dómareifananna, að hinn 11. janúar 2006 hafi fallið athyglisverður dómur um félagafrelsi í Strassborg. Í formála Bjargar segir:

„Er ekki útséð hvort dómurinn kunni að hafa áhrif á íslenskan vinnumarkað. Hér á landi eru til staðar forgangsréttarákvæði í flestum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem fela í sér að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags hafi forgang til vinnu á félagssvæði þess, þótt stéttarfélagsaðild sé ekki forsenda ráðningar. Athyglisvert er að í dóminum er vísað til breyttra viðhorfa Evrópuríkja sem hafa horfið frá slíkri skipan á vinnumarkaði og jafnframt að eingöngu á Íslandi, auk Danmerkur, sé að finna ákvæði af þessum toga í kjarasamningum. Ekki er þó fyllilega ljóst af dóminum hvort forgangsréttarákvæði í kjarasamningum á borð við þau sem hér tíðkast séu í andstöðu við 11. gr. (mannréttinda)sáttmálans.“

Björg fer varlega í túlkun sinni á áhrifum þessa dóms hér á landi. Hitt er líklegt, að yrði látið reyna á íslenska skylduaðild að verkalýðsfélögum í Strassborg, leiddi niðurstaða dómaranna til nokkurs uppnáms. Hitt er svo undarlegt, að ekki hafi orðið neinar opinberar umræður hér í tilefni af dóminum frá 11. janúar.