2.12.2006 17:34

Laugardagur, 02. 12. 06.

Flaug til Amsterdam klukkan 07.50 á leið á Schengen-ráðherrafund í Brussel, lenti rétt fyrir 12.00 í grenjandi rigningu.

Sá á ruv.is, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði haldið stefnumarkandi ræðu yfir Samfylkingarfólki. Hún sagði m.a. að vandi Samfylkingarinnar lægi í því að kjósendur þyrðu ekki að treysta þingflokknum fyrir landsstjórninni. Hingað til hefði fólk ekki treyst þingflokknum til þess að gæta hagsmuna þeirra, tryggja stöðugleika, fara með skattpeninga af ábyrgð, gæta þess að atvinnulíf sé samkeppnishæft og til að standa vörð um hagsmuni Íslands utan landssteinanna. Nú yrði á því breyting enda væri Samfylkingin tilbúin. Ingibjörg sagði það mundu verða eitt fyrsta verk Samfylkingarinnar að taka Ísland af lista hinna viljugu þjóða sem studdu innrásina í Írak.

Spyrja má: Hvers vegna skyldi fólk treysta þingflokki Samfylkingarinnar nú en ekki áður? Af því að Össur er orðinn formaður þinglokksins? Hvað hefur annað breyst? Þetta tal um Ísland á lista hinna viljugu þjóða er skrýtið - listinn var saminn í Hvíta húsinu, þar er höfundarréttur að honum. Fór ekki Róbert Marshall, frambjóðandi Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi, illa á því að vera að tala um listann sem fréttamaður? Hvað með auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar í The New York Times - átti hún ekki að þurrka okkur af listanum? Samfylkgingin ætti að fara varfærnum höndum um þennan lista, ef hann er einhvers staðar að finna fyrir utan vefsíðu Hvíta hússins.

Var klukkan 20.30 í Orgelparken í Amsterdam, gamalli kirkju, sem hefur verið gerð upp sem tónleikasalur, einkum fyrir organista, því að þar eru þrjú orgel og tvö píanó. Húsið verður opnað opinberlega í janúar 2007 en í kvöld var verið að opna það óformlega og meðal þeirra, sem komu fram á fjölmennri hátíð voru Skálholtskvartettinn undir forystu Jaaps Schröders, en hann býr svo að segja við hliðina á þessu nýja menningarhúsi, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari, Sigurður Halldórsson sellóleikari og Rut kona mín eru með Jaap í kvartettinum.