19.1.2016 15:00

Þriðjudagur 19. 01. 16

Hlustendur frétta ríkisútvarpsins fylgjast náið með stöðunni á Landspítalanum frá degi til dags. Stundum mætti ætla að þegar lítið nýtt efni er fyrir hádegisfréttir ákveði fréttastjórinn að hringt skuli í Landspítalann, þar hljóti að vera vandræði af einhverju tagi sem eigi erindi við hlustendur. Ósjaldan ber fyrsta fréttin þetta með sér eins og í dag en hún hófst á þessum orðum:

„Mikið álag er á bráðamóttöku Landspítalans þessa dagana. Ekki er pláss fyrir fjölda sjúklinga sem ákveðið hefur verið að leggja inn.

Það er ekki óvanalegt að það sé mikið álag á bráðadeild Landspítalans á þessum árstíma, en síðustu daga hefur álagið verið óvenju mikið. Sjúklingar hafa þurft að bíða klukkustundum saman og gríðarlega mikið að gera hjá starfsfólki.“

Margt nýtt og spennandi sem gerist á sviði læknisfræðinnar fær ekki eins mikla athygli fréttahaukanna við Efstaleiti og daglegur rekstur Landspítalans. Í BBC, breska ríkisútvarpinu, var til dæmis ítarlega sagt frá því í gær að læknar í Sheffield í Bretlandi hefðu náð „ótrúlegum“ árangri við að lækna MS-sjúkdóminn með því að beita sömu aðferðum og við krabbameinssjúklinga, það er stofnfrumumeðferð.  

Gatnamótin við Stakkahlíð og Hamrahlíð eru fjölfarin gangandi fólki auk þess sem töluverð umferð er jafnan um Hamrahlíðina en gangbrautarljós eru yfir hana skammt fyrir austan Stakkahlíðina. Öðru megin Hamrahlíðar er Blindraheimilið og hinu megin Hlíðaskóli, fjölmennur grunnskóli. Næst fyrir austan hann er Menntaskólinn við Hamrahlíð (MH) og er biðstöð strætisvagna kennd við MH ekki langt frá ljósunum.

Hér er minnst á þessi gatnamót og gangbrautarljósin vegna þess að á þeim hefur verið slökkt vegna bilunar í fáeinar vikur auk þess sem ekki loga nein götuljós á þessum slóðum. Sett hefur verið upp skilti um að ljósin séu óvirk en engin skýring er gefin á skorti á götulýsingu.

Nemendur í Hlíðaskóla eru í allt frá fyrsta bekk til 10. bekkjar auk þess sem blindir sem eiga leið yfir Hamrahlíðina treysta mjög á ljósin og hljóðmerkið sem þeim fylgir. Auðvitað hlýtur bilunin í götuljósunum að vera alvarleg úr því að þau eru svo lengi óvirk. Á meðan það ástand varir hefði hins vegar verið rík ástæða til að auka frekar almenna götulýsingu á þessum slóðum í stað þess að hafa ljósastaurana almyrkvaða.