25.1.2016 16:15

Mánudagur 25. 01. 16

Margir velta fyrir sér hvort stefni í óefni í Bandaríkjunum vegna þess hve frambjóðendur innan raða demókrata og repúblíkana þykja lítt álitlegir til að fara með úrslitavald um beitingu bandaríska hersins eða leiða þjóðina í sátt og jafnvægi fram á veginn.

Þegar svo er komið berast fregnir um að milljarðamæringurinn Michael Bloomberg (73 ára) sem sat í þrjú kjörtímabil sem borgarstjóri í New York velti enn einu sinn fyrir sér hvort hann eigi að bjóða sig fram utan flokka. Fyrir forsetakosningarnar 2008 og 2012 bárust fréttir um að Bloomberg íhugaði stöðu sína en í hvorugt skiptið lét hann til skarar skríða. Nú telja stjórnmálaskýrendur að hann muni ekki hugsa sér til hreyfings ef Hillary Clinton verður tilnefnd forsetaframbjóðandi demókrata nema hún eigi undir högg að sækja vegna ásakana um að hafa misfarið með trúnaðarmál sem utanríkisráðherra.

Leiðarahöfundur The Wall Street Journal  ræðir í dag styrkleika Bloombergs og segir hann halla sér nógu langt til vinstri í afstöðunni til skotvopna, loftslagsbreytinga og innflytjendamála til að margir demókratar geti hugsað sér að styðja hann. Hann sé miðjumaður í efnahagsmálum og sýni nokkra hörku í utanríkismálum en það fæli demókrata ekki frá honum þegar hagvöxtur sé 2% og Ríki íslams sæki í sig veðrið.

Erfiðara sé að átta sig á hvernig hann höfði til kjósenda til hægri við miðjuna, það ráðist að vísu af því hver verði frambjóðandi repúblíkana. Hann hafi staðið sig frábærlega við að fækka glæpum í New York og hann hafi tekið slaginn við kennarasamtökin vegna frjáls vals á skólum og starfsskyldna. Samtök skotvopnaeigenda hafi þó megna skömm á honum og hann sýni stundum of mikla opinbera umhyggju eins og þegar hann vildi banna stórar gos-plastflöskur í New York til að minnka gosdrykkjaþamb og sykurneyslu.

Í leiðaranum er rakið hve leið Bloombergs til framboðs og í Hvíta húsið er torsótt og í lokin segir:

„Allt krefst þetta að eitthvað gerist sem verður nær aldrei í bandarískum stjórnmálum. Bloomberg er hins vegar alvörugefinn maður sem mundi hvorki verja fé sínu né tíma kæmi hann ekki auga á tækifæri. Megi læra eitthvað af því sem gerst hefur í válegri kosningabaráttunni undanfarið er það að kjósendur séu nógu kvikir til að allt geti gerst.“