21.1.2016 19:00

Fimmtudagur 21. 01. 16

Það er í raun furðulegt að fréttamenn hafi fyrir að birta viðbrögð talsmanns Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta við skýrslu bresks dómara um morðið á Alexander Litvinenko í London í nóvember 2006. Þau einkennast í senn af yfirlæti og lítilsvirðingu í garð hins myrta. Lítilsvirðingin ber í raun með sér að Kremlverjar teljo Litvinenko réttdræpan enda hafi hann snúið baki við KGB sem er dauðasök í augum rússnesku valdaklíkunnar.

Hér má lesa um morðið og skýrsluna.

Enginn vafi er á aðild rússneskra stjórnvalda að þessu morði á manni sem vann að því að rekja tengsl valdaklíku Pútíns við skipulagða glæpastarfsemi. Fréttaskýrandi BBC segir niðurstöður dómarans bendi ákveðnar til Vladimírs Pútíns persónulega en margir hefðu vænst. Svo virðist sem þar sé reist á leynilegum upplýsingum sem dómarinn hafi fengið á lokuðum fundi. Þegar dómarinn segi að Litvinenko hafi verið myrtur vegna þess að hann hafi verið óvinur rússneska ríkisins þrýsti það enn frekar á að bresk stjórnvöld grípi til „raunverulega aðgerða“, fyrir tæpum áratug hafi aðgerðirnar verið takmarkaðar.

Athyglisvert er að sjá í breskum fjölmiðlum vangaveltur um að viðbrögðum bresku ríkisstjórnarinnar séu settar skorður vegna þess hlutverks sem Rússar gegni nú í Mið-Austurlöndum. Þessar vangaveltur koma heim og saman við það sem Bill Browder fésýslumaður sagði hér á landi undir lok nóvember 2015 þegar hann kynnti bók sína Eftirlýstur.

Hann taldi það meðal annars skýringu á ákvörðun Pútíns um að senda herafla til Sýrlands að  hann vildi styrkja stöðu sína gagnvart Vesturlöndum, hann mundi síðan nýta aðstöðuna sem stríðsþátttakan skapaði til að skara eld að eigin köku og gæta einkahagsmuna sinna.

Rætt var við Browder í BBC í tilefni skýrslu breska dómarans. Hann sagði:

„Allt sem hugsanlega getur afhjúpað hvernig glæpamennirnir við stjórnvölinn [í Rússlandi] afla sér fjár kemur þeim sem að afhjúpuninni stendur í lífshættu. Geti ríkisstjórn Rússlands sent launmorðingja til að drepa fólk í Bretlandi án þess að það dragi dilk á eftir sér felur það í raun í sér að kveikt hafi verið á græna ljósinu fyrir frekari morð á fólki.“

Hann sagði að yfirvöld í Bretlandi og ESB ættu „að minnsta kosti“ að beita refsiaðgerðum eins og frystingu eigna og ferðabanni gagnvart þeim innan rússneska stjórnkerfisins sem bera einhvern vott af ábyrgð á morðinu á Litvinenko.