7.1.2016 18:30

Fimmtudagur 07. 01. 16

Síðdegis í dag, 7. janúar, birti YouGov könnunarfyrirtækið í Bretlandi niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar um afstöðu Breta til aðildar að ESB. Könnunin sýnir að þjóðin skiptist 51-49 til stuðnings ESB-aðild. Þeir sem búa í Skotlandi, hafa hlotið háskólamenntun eða eru yngri en 30 ára eru helst fylgjandi aðild að ESB. YouGov segir að „eitt helsta verkefni þeirra sem vilja ESB-aðild“ sé að hvetja kjósendur undir 30 ára aldri til að greiða atkvæði, þeir séu líklegastir til að styðja aðild en ólíklegastir til að fara á kjörstað. Andstæðingar aðildar þurfi hins vegar að leggja mesta áherslu á fá sem flesta af hinum almenna vinnumarkaði til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sé afstaða manna skoðuð eftir búsetu kemur í ljós að 60% manna í Skotlandi vilja vera í ESB. Nicola Sturgeon, úr Skoska þjóðarflokknum og forsætisráðherra Skotlands, hefur sagt að yfirgefi Bretland ESB verði ekki unnt að koma í veg fyrir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu meðal íbúa á Skotlandi um sjálfstæði Skotlands. Næst mesti áhuginn á aðild er í London 55% með en 45% á móti aðild. Í sex héruðum á Bretlandi styður meirihlutinn aðild en í fimm er meirihlutinn andvígur henni.

Skilin í afstöðu til ESB-aðildar eru skýr milli aldurshópa. Af þeim sem eru 18-29 ára eru 63% hlynnt aðild en 56% eldri en 60 ára vilja segja skilið við ESB. Aðrir aldurshópar skiptast í nær jafnstóra hópa.

Líklegt er að afstaða bresks almennings verði á þessu róli þar til skýrist hvort David Cameron forsætisráðherra hefur erindi sem erfiði í viðræðum um nýja ESB-aðildarskilmála Breta. Vilji Camerons stendur til að Bretar verði áfram aðilar að ESB en á nýjum grunni sem er í mörgu tilliti óljós. Cameron kemur í sjálfu sér vel á þessu stigi að aðildin hangi á bláþræði, það styrkir samningsstöðu hans því að ofan á evru-kreppuna og Schengen-krísuna má ESB vart við því að Bretar segi skilið við sambandið. Forystumenn Frakklands, Þýskalands og ESB-embættismannaveldisins munu því leggja sig fram um að auðvelda Cameron að gerast afdráttarlaus talsmaður ESB-aðildar í Bretlandi.