8.1.2016

Hert ákvæði um skil farþegalista vegna áhættugreiningar

Morgunblaðið 8. janúar 2016

Þýska blaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung sagði fyrr í vikunni að hafin væri keppni milli Norðurlanda um hvert þeirra hefði minnst aðdráttarafl fyrir hælisleitendur.

Frá og með mánudeginum 4. janúar hafa Svíar krafið alla sem fara yfir Eyrarsundsbrúna frá Kaupmannahöfn um skilríki með mynd. Framkvæmdin er kölluð „transportansvar“ á dönsku, ábyrgð flytjanda. Allir lestarfarþegar frá Danmörku til Svíþjóðar fara um eftirlitshlið mannað Securitas-vörðum í brautarstöðinni á Kaupmannahafnarflugvelli. Verðirnir skanna skilríkin og miðla upplýsingum til sænskra yfirvalda en lögreglumenn þeirra handan Eyrarsunds taka á móti farþegunum. Dönsku járnbrautirnar, DSB, borga brúsann, 170 m. ísl. króna á mánuði sem velt verður á farþega.

Sama mánudag 4. janúar tilkynnti Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, að hafið yrði tímabundið landamæraeftirlit við Þýskaland. „Vi kan og skal passe på Danmark,“ sagði ráðherrann. Vildi danska stjórnin stofna til samstarfs við þýska flutningsaðila en Þjóðverjar segja það brjóta gegn lögum sínum að lestarverðir eða hópferðabílstjórar hafni farþegum sem ekki hafi skilríki með mynd. Danska stjórnin hefur falið lögreglu að hafa auga með umferð inn í landið án þess þó að stöðva hvern og einn.

Finnska ríkisstjórnin fól fyrir jól skipafélaginu Finnlines sem heldur úti ferju á milli Travermünde í Þýskalandi og Helsinki að vísa frá öllum án vegabréfsáritunar til Finnlands. Finnlines hefur farið að þessum tilmælum.

Sylvi Listhaug, nýskipaður útlendingamálaráðherra Noregs, kynnti 29. desember frumvarp í 18 liðum með 40 breytingum á útlendingalögunum til að tryggja að í Noregi yrðu ströngustu útlendingalög í Evrópu. Hafa Norðmenn hert allt eftirlit á landamærum sínum.

Hert lög á Íslandi

Við gæslu landamæra Íslands skiptir greining á farþegaupplýsingum höfuðmáli. Alþingi steig nýtt skref til að auka gildi slíkrar greiningar 19. desember 2015 með einróma samþykkt tillögu frá efnahags- og fjármálaráðherra um breytingu á tollalögunum. Þar er tekið af skarið um skyldu flutningsaðila til að miðla upplýsingum um farþega til íslenskra yfirvalda.

Framvegis er fyrirtækjum sem annast flutning farþega og vöru til og frá landinu skylt að afhenda tollstjóra upplýsingar um farþega og á­höfn. Nær skyldan meðal annars til  einkaflugvéla og seglskipa. Tollstjóra, lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds er heimilt að skiptast á  þessum upplýsingum í þágu eftirlits, greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum. 

Með samþykkt hins nýja ákvæðis fá íslensk stjórnvöld ótvíræða lagaheimild til að krefjast farþegaupplýsinga. Til þessa hefur heimildin ekki verið afdráttarlaus. Form afhentra upplýsinga hefur auk þess verið háð samkomulagi við flugfélög. Þá hefur skort á upplýsingar frá nokkrum flugfélögum. PNR-upplýsingar um farþega verða til við farmiðabókun. Farþegaupplýsingum úr vegabréfum, API-upplýsingum, er hins vegar safnað við innritun farþega fyrir flug og þær eru sendar því ríki sem farþegi ferðast til.

„Lögreglan á Suðurnesjum og tollstjóri safna farþegaupplýsingum og greina þær. Hingað til hefur sjónum þó aðeins verið beint að farþegalistum, PNR-upplýsingum. Upplýsingum úr vegabréfum, API-upplýsingum, hefur enn sem komið er ekki verið safnað hér á landi vegna greiningarstarfs en líklega munu breytingar verða á því í náinni framtíð,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Rafræn skráning

Þegar tæknibúnaður hér á landi leyfir verður farþegaupplýsingum skilað á rafrænan hátt inn í kerfi sem auðveldar alla greiningu. Alls eru nefnd 19 atriði varðandi hvern flugfarþega sem skráð eru í þetta kerfi samkvæmt staðli sem um það gildir. Við komu skipa sem flytja farþega og ökutæki verða upplýsingar um ökutækin skráðar auk persónuupplýsinganna.

Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um aðra og ríkari upplýsingagjöf en krafist er í þessum staðli reynist það nauðsynlegt með tilliti til innlendra og erlendra krafna til eftirlits, greiningarstarfs og rannsókna tollstjóra og lögreglu. Í reglugerðinni verður ákveðið hve lengi upplýsingar sem safnað er á þennan hátt verða geymdar með tilliti til notkunar þeirra við eftirlit, greiningarstarf og rannsóknir tollstjóra og lögreglu. Almennt er gengið út frá því að frestir til að eyða persónurekjanlegum upplýsingum í farþegalistum fari ekki yfir tvö ár.

Framkvæmdin skiptir sköpum

Sé tekið mið af spám um að ferðamenn til landsins verði 1,5 milljón í ár og 6,25 milljónir manna fari um Keflavíkurflugvöll er augljóst að mikið magn upplýsinga verður til skoðunar hjá þeim sem greina upplýsingarnar sem berast með farþegalistum flugfélaganna.

Greiningin er grundvöllur áhættumats, nýtist við leit að þeim sem sæta grun um ólögmætt athæfi og í baráttu við mansal. Þá er unnt að ganga lengra eins og Finnar hafa gert með því að stöðva þá sem ekki hafa áritun í vegabréfi sínu. Að fordæmi Finna má krefjast af flugfélögum að þau neiti þeim að fara um borð í vélar sínar sem ekki hafa áritun til Íslands. Fordæmið frá Danmörku sýnir að flutningsaðilar bera kostnað af ábyrgð sinni í þessu efni.

Ljóst var að Schengen-samstarfið tæki á sig nýja mynd þegar gæsla ytri landamæra svæðisins hrundi. Afleiðingar þess sjást nú skýrast á Norðurlöndunum. Breyttar aðstæður krefjast nýrra viðbragða hér og annars staðar. Danir hafa sent þúsundir lögreglumanna til landamæra Þýskalands og þjálfa nú hermenn til landamæragæslu í viðlögum.

Íslensk yfirvöld ráða nú yfir öflugra tæki en nokkru sinni til greiningar og áhættumats í þágu landamæravörslu. Nýting þessa tækis krefst nýs tæknibúnaðar og aukins mannafla. Fjárveitingarvaldið hlýtur að fylgja því eftir með auknum fjárheimildum og framkvæmavaldið með nauðsynlegum ráðstöfunum.

Að lokum ber þó að hyggja að því að sama dag og alþingi efldi réttilega heimildir framkvæmdavaldsins til að stunda landamæravörsluna gekk það gegn skipulegri framkvæmd hennar og stefnunni annars staðar á Norðurlöndum með því að hafa að engu brottvísun Útlendingastofnunar á tveimur albönskum fjölskyldum. 

Sænskir ráðamenn hafa ekki látið við það eitt sitja að herða landamæravörslu með löggæslu heldur kynna þeir stefnubreytinguna af miklum þunga öllum til viðvörunar. Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands og Noregs hafa gert hið sama með stuðning þingmanna að baki sér. Hér verða stjórnmálamenn einnig að standa fast að baki þeim sem falið er að gæta laga og réttar á hinu viðkvæma sviði útlendingamála.