12.1.2016 20:20

Þriðjudagur 12. 01. 16

Skýrsla um um efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands á íslenska hagsmuni var birt í dag og má lesa hana hér  – hún er á ensku og segist Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ekki hafa neina skýringu á því. Reykjavík Economics samdi skýrsluna en Magnús Árni Skúlason hagfræðingur er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Í skýrslunni segir að tapaðar útflutningstekjur vegna lokunar Rússlandsmarkaðar geti verið á bilinu tveir til átján milljarðar króna, allt eftir lengd bannsins og hversu þungt Rússlandsmarkaður vegi. Af þessu stóra bili má ráða að ekki er auðvelt að slá neinu föstu um þessar tekjur. Raunar er næsta haldlítið að deila um málið með vísan til talna um tekjur. Enginn veit neitt um framtíðina í efnahagsmálum Rússlands þegar verð á olíutunnu er komið niður í 30 USD.

Hraðferð yfir skýrsluna leiðir ekki í ljós að þar sé gerð grein fyrir ákvörðun Matvælastofnunar Rússlands um að loka á viðskipti við nokkra stóra seljendur frá Íslandi. Stofnuninni er beitt í pólitískum tilgangi meðal annars til að knýja erlenda seljendur til að eiga viðskipti við einhvern stóru hringanna fjögurra sem nú hafa skipt rússneska matvælamarkaðnum á milli sín í skjóli Vladimírs Pútíns.

Þá verður ekki heldur séð að skýrsluhöfundar geri grein fyrir hvernig íslenskum fyrirtækjum hefur gengið að innheimta kröfur sínar í Rússlandi. Hefði verið fróðlegt að sjá hlutfall affalla í uppgjörum undanfarinna ára.

Á bls. 29 í skýrslunni er vitnað í ræðu sem Dmtrij Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, flutti í ágúst 2015 og sagt að í henni virðist gefið til kynna að innflutningsbann Rússa megi að hluta rekja til ákvörðunar stjórnvalda um að efla framleiðslu matvæla heima fyrir til að tryggja fæðuöryggi Rússa.

Að verða sjálfum sér nógir í matvælaframleiðslu er hluti hernaðarstefnu Rússa og nær hún einnig til fiskveiða.

Þá er á bls. 32 í skýrslunni bent á að bann við innflutningi á matvælum til Rússlands megi skoða sem lið í fjármagnshöftum enda sé nauðsynlegt að grípa til róttækra ráðstafana til að vernda gjaldeyrisforðann.

Skýrslan er innlegg í umræður sem orðið hafa um innflutningsbann Rússa og taka á sig ýmsar myndir þar sem fiskútflytjendur skella í bráðræði allri skuld á íslensk yfirvöld meðal annars með þessum orðum Guðmundar Gíslasonar á Djúpavogi í Morgunblaðinu í morgun: „Samningatækni íslenskra stjórnvalda hefur vægast sagt verið einkennileg.“ Orðin gefa til kynna þá hugmynd að unnt sé að semja við Pútín vegna einhliða ákvörðunar hans – hvílík ranghugmynd.