5.1.2016 21:00

Þriðjudagur 05. 01. 16

Í frétt á vefsíðu Isavia segir í dag

„Árið 2015 fóru 4.855.505 farþegar um Keflavíkurflugvöll, einni milljón fleiri en árið 2014. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri og er um að ræða 25,5% aukningu frá fyrra ári. Skiptingin var þannig að 1.693.858 komu til landsins um flugvöllinn, 1.696.769 fóru frá landinu og 1.464.878 millilentu. Júlí var stærsti mánuður ársins með 662.750 farþega. Samkvæmt farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að 6,25 milljón farþegar fari um flugvöllinn árið 2016.“

Fjöldi ferðamanna var um 1,3 milljón árið 2015 og spáð er að hann verði 1,5 milljón í ár. Árið 2013 spáði Boston Consulting Group (BCG)að 1,5 milljón talan næðist árið 2023 – nú eru sjö ár þangað til! Hér má sjá spána. 

BCG heldur úti 82 skrifstofum í 46 löndum og skýrslan um þróun íslenska ferðamarkaðarins var unnin frá október 2012 til júlí 2013 en kynningin á henni var í september 2013. Icelandair, Isavia, Bláa lónið og Höldur fengu sérfræðinga BCG til að vinna skýrsluna.

Tölurnar sem Isavia birti í dag eru einfaldlega allar hærri en sérfræðinga BCG grunaði. Það er til marks um mikinn sveigjanleika íslensks atvinnulífs að tekist hafi á svo skömmum tíma að skapa svigrúm til þessarar öru aukningar. Segja má, að svigrúmið sé fyrir hendi þrátt fyrir ríkisvaldið og afskipti þess.

Skapa ber þróun ferðaiðnaðarins, vernd og nýtingu náttúrunnar hæfilegan lagaramma svo að frumkvæði einkaaðila njóti sín til nauðsynlegra framkvæmda. Fróðlegt væri að vita hvenær þeir sem báðu BGC að vinna fyrrgreinda skýrslu hafi áttað sig á að ráðgjafarnir fóru villir vega. Þeir gerðu til dæmis ráð fyrir að á þessu ári, 2016, yrði fjöldi ferðamanna á bilinu 910 til 990 þúsund.