3.1.2016 16:15

Sunnudagur 03. 01. 16

Í morgun kl. 08.37 var Árni Björn Guðjónsson spurður í heita pottinum í Laugardalslauginni hvort hann ætlaði að gefa kost á sér sem forseti Íslands. Hann svaraði því neitandi. Eftir því sem leið á daginn hefur hann greinilega fengið víðtæka hvatningu. Á ruv.is birtist kl. 14.17:

„Árni Björn Guðjónsson ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.

Í fréttatilkynningu frá Árna Birni segir að hann muni leggja aðaláherslu á að eyða hatri á Íslandi og um allan heim. Ætlar hann að leita liðsinnis páfans í þeim efnum.

Árni Björn segist aðeins ætla að sitja í tvö kjörtímabil verði hann kjörinn. 

Hann er 76 ára gamall og var oddviti framboðs Kristilegrar stjórnmálahreyfingar sem bauð fram lista í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi í Alþingiskosningunum 1995. Flokkurinn fékk 316 atkvæði eða 0,2% atkvæða.“

Framboðshugleiðingar Árna Björns sýna að þröskuldurinn sem menn þurfa að stíga yfir til að láta í ljós áhuga á framboði setur engum skorður. Ástþór Magnússon hefur auk þess sótt svo hart að fréttastofu ríkisútvarpsins að þar sjá fréttamenn að sjálfsögðu þann kost vænstan að birta allt sem að þeim er rétt frá væntanlegum frambjóðendum.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur fært forsetaembættið til þeirrar áttar að brýnna er en ella að tryggja með kosningareglum að kjörinn forseti hafi meirihluta þeirra sem greiða atkvæði að baki sér. Hinn kosturinn kann þó að þykja nærtækari að setja skýrari stjórnskipunarreglur um vald forseta og breyta 26. gr, stjórnarskrárinnar.

Stjórnmálaflokkar ættu að sameinast um efni breytingar á 26. gr, í aðdraganda forsetakosninganna og semja um raunverulegan rétt þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál með augljósum og skýrum skilyrðum en ekki láta það háð duttlungum eins manns eins og nú er eftir túlkun Ólafs Ragnars á 26. gr.